Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 10:42:59 (6143)

2000-04-07 10:42:59# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[10:42]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér er í gangi blekkingarleikur varðandi þetta mál og mun ég koma inn á það í ræðu minni hér á eftir sem og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. En hv. þm. Hjálmar Árnason, formaður iðnn., fer með rangt mál hér í andsvari og ég get ekki látið hjá líða að minnast á það hér. Hann segir að það hafi komið fram í nefndinni að Landsvirkjun hafi dregið sig út úr fjarskiptafyrirtækinu sem hún var aðili að. Það er rangt. Það hefur ekki komið fram í nefndinni. Ég hef farið í gegnum öll gögn sem nefndinni hafa borist og það kemur hvergi fram í þeim. Hér er hv. þm. að fara með rangt mál.

Aftur á móti er mjög alvarlegt að í athugasemdum með frv. kemur fram að þetta kerfi eigi að vera fyrir fleiri aðila sem starfa að öryggismálum. Hér er verið að blekkja þingið. Meiri hluti nefndarinnar kemur hvergi inn á það. Ég spyr hv. þm.: Hvernig stendur á því að hér er verið að blekkja þingið í athugasemdum án þess að meiri hlutinn geri nokkra athugasemd? Meiri hlutinn fer fram á að það verði samþykkt óbreytt.

Við vitum hins vegar alveg hvað hér er á ferðinni. Landsvirkjun hefur ekki getað unað því að bíða lægri hlut í útboði við annað fyrirtæki. Það ætlaði sér að koma á öryggisþjónustu við allt landið en beið lægri hlut. Því gat Landsvirkjun ekki unað. Þess vegna á að koma þessari lagasetningu hér í gegn.

Ég fer bara fram á það við hv. þm. að hann samþykki það hér, lýsi því yfir og segi hér hvernig í pottinn er búið.