Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 10:48:54 (6146)

2000-04-07 10:48:54# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[10:48]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég held það sé rétt að það komi hér skýrt fram að við erum ekki á stjórnarfundi hjá Landsvirkjun. Það held ég að liggi alveg ljóst fyrir. Við erum hér að fjalla um frv. til laga á löggjafarsamkomunni og þær ákvarðanir sem eru teknar af forstjóra eða stjórn Landsvirkjunar eru málefni þeirra. (Gripið fram í.) Það er því í hæsta máta óeðlilegt að ætlast til þess að formenn einstakra nefnda eða einstakir þingmenn séu hér að fletta í stjórnarsamþykktum einstakra ríkisstofnana. Það er búið að koma ítrekað fram að þær eru til þess að fara með málefni stofnananna. Þannig hafa lög verið samþykkt og stjórnunum er falið að höndla með málefni einstakra stofnana og þær eru ábyrgar. Ef einstaka stofnanir, stjórnir eða starfsmenn hafa gert eitthvað sem kann að vera lögbrot gagnvart einhverjum lögum þá á að fara með slík brot og slíkar ásakanir á slíkan vettvang. Þar höfum við t.d. dómstóla. Þar höfum við t.d. Samkeppnisstofnun og þannig má áfram telja.

Enn og aftur segi ég: Við erum hér að fjalla um það almenna prinsipp hvort Landsvirkjun eigi að geta tekið þátt í fjarskiptamarkaðnum eins og flest fjarskiptafyrirtæki mæla eindregið með, eins og ég geri ráð fyrir að hv. þm. hafi kynnt sér og muni eftir frá fundum nefndarinnar.