Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 11:18:43 (6148)

2000-04-07 11:18:43# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[11:18]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst er rétt að það komi fram að sjö af níu nefndarmönnum í hv. iðnn. töldu málið orðið það rætt að hægt væri að taka það út úr nefndinni. Það voru aðeins tveir hv. þingmenn, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og hv. þm. Ragnheiður Ásta Jóhannesdóttir sem töldu að það væri ekki nógu vel rætt.

(Forseti (GuðjG): Ásta Ragnheiður.)

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Þá er líka rétt að leiðrétta aðeins að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir fór ekki alveg með rétt mál þegar hún sagði að um málið hefði aðeins verið fjallað á tveimur fundum. Það er rangt. Fyrir utan þann fund sem hv. þm. gat um með fulltrúum Neyðarlínunnar kom það til umræðu í nefndinni á fjórum fundum. Á einum fundinum, líklega þeim lengsta, háttaði svo til af örugglega mjög gildum ástæðum að báðir áðurnefndir hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir þurftu að vera á vegum Alþingis við störf erlendis. En þó að hv. þm. séu við mikilvæg störf erlendis þá er það nú ekki svo að tíminn stöðvist hér heima, hvort heldur er í iðnn. eða annars staðar. Og iðnn. hélt langan, mjög málefnalegan og góðan fund og þess vegna er ekki rétt af hv. þm. að telja slíkan fund ekki með. Það var líklega einn lengsti fundurinn þar sem um þetta var fjallað.

Þar var ágætur fulltrúi Samfylkingarinnar, hv. þm. Jóhann Ársælsson, og í lok þess fundar var tilkynnt að málið yrði tekið út á næsta fundi þar á eftir og enginn nefndarmanna, herra forseti, hreyfði athugasemdum þá. En þegar hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kom síðan á næsta fund voru gerðar athugasemdir.