Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 11:23:09 (6150)

2000-04-07 11:23:09# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[11:23]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að hv. þm. er ósáttur við þá ákvörðun sjö af níu nefndarmönnum að taka málið út úr nefnd.

Hvað varðar umsagnirnar þá er rétt að taka fram að þeir aðilar sem ekki voru búnir --- og það er rétt hjá hv. þm. að frestur til að skila inn skriflegum umsögnum var ekki liðinn, og það er gagnrýnivert. En ég vek athygli á því, eins og hv. þm. veit, að umsagnaraðilar komu á fund nefndarinnar og færðu okkur munnlegar umsagnir sínar.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér núna á milli ræðna mun það vera í stofnsamningi TETRA að ef Alþingi ekki samþykkir þessi lög muni Landsvirkjun draga sig út úr fyrirtækinu, þessu stofnaða fyrirtæki. Það mun vera skýr fyrirvari um slíkt í stofnsamningi þess fyrirtækis. Hvort það er lögbrot eða ekki skal ég ekki leggja mat á.

Hitt er deginum ljósara, herra forseti, að fulltrúar frá Tal hf., Íslandssíma, Línu.Net, Póst- og fjarskiptastofnun og fleiri aðilar mæla mjög eindregið með því að Landsvirkjun fái þessa almennu heimild. Það er til þess að geta nýtt þann búnað sem lagður er til grundvallar og ég hygg að sé nú það sem kemur málinu upphaflega af stað.

Það liggur líka ljóst fyrir, herra forseti, að að óbreyttum lögum, verði þetta frv. ekki samþykkt hefur Landsvirkjun einfaldlega ekki heimild til þess að hleypa þessum aðilum, þar á meðal Irju, inn í þennan búnað. Og ég hygg að það sé ekki það sem menn almennt vilja. Stjórn Landsvirkjunar, fjarskiptalög, dómsmrn., Póst- og fjarskiptastofnun eru þeir aðilar sem fjalla síðan um praktískar útfærslur á einstökum þáttum en ekki löggjafarsamkoman. Það var mat okkar í meiri hluta hv. iðnn.