Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 11:49:54 (6154)

2000-04-07 11:49:54# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[11:49]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Er það nokkur furða þó maður efist um að nefndarmenn í iðnn. hafi vitað um hvað málið snerist þegar við hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir höfum verið að fá upplýsingar um þetta alveg fram á daginn í dag? Þær upplýsingar höfðu alls ekki komið fram í hv. iðnn. Það er því ekkert skrýtið þó að maður efist um að menn hafi vitað nákvæmlega hvernig í pottinn var búið.

Það er enginn misskilningur, auðvitað þarf lagabreytingu til þess að Landsvirkjun hleypi öðrum inn á kerfið. Aftur á móti var gagnrýni mín fólgin í því að það eru engar takmarkanir, nákvæmlega eins og hv. formaður iðnn. ... (Gripið fram í.) Það ætti að vera heimilað að gera það. En það eru engar takmarkanir í lagasetningunni eins og hún er í dag. Það gagnrýni ég. Það er kannski það sem við þurfum að skoða þegar málið kemur til nefndarinnar sem ég vona að verði á milli 2. og 3. umr. því að það er fullkomlega óeðlilegt eins og að því er staðið.

Varðandi afstöðu stjórnarmanna í Landsvirkjun get ég ekki sagt annað en að þegar það koma átta spurningar, mjög gagnrýnar, í mörgum liðum um Landsvirkjun og TNet frá stjórnarmanni, leyfi ég mér að halda því fram að ekki sé alveg samhljómur í öllum stjórnarmönnum hjá Landsvirkjun um að fara þessa leið. Enda kemur það fram í gögnum frá Landsvirkjun, frá stjórnarfundum Landsvirkjunar að það var samstaða um þetta í sumar áður en farið var í útboð Ríkiskaupa. En eftir það hefur málið ekki verið rætt og ekki hefur verið tekin afstaða til þess þannig að það er bara staðreynd málsins.