Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 11:55:27 (6157)

2000-04-07 11:55:27# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[11:55]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu stórmál á sviði fjarskipta, hvort Landsvirkjun skuli heimilað að stofna til fyrirtækis til að hleypa öðrum inn á fjarskiptanet sitt. Málið á þann aðdraganda að Landsvirkjun hefur á mörgum undanförnum árum byggt upp gríðarlega mikið fjarskiptakerfi alveg frá Þjórsár-/Tungnaársvæði um Suðurland, vestur um Hvalfjörð og norður í land um Blönduvirkjun, norður til Akureyrar, Kröfluvirkjunar og Húsavíkur.

Það liggur alveg ljóst fyrir að Landsvirkjun hefur byggt upp þetta net til að sinna og þjónusta fyrirtæki sín en þetta net er jafnframt í stakk búið til þess að þjóna meiru og eftir þeim upplýsingum sem við höfum fengið er mikill áhugi hjá ýmsum aðilum til að komast inn á og nota þetta net. Það er mergurinn málsins.

Eins og málið hefur verið lagt upp fyrir okkur nefndarmönnum í iðnn. þá er hér um gríðarlegt hagsmunamál að ræða, líka öryggishagsmunamál, vegna þess að Landsvirkjun starfar eðli málsins samkvæmt á svæðum sem eru í óbyggðum eins og norður um Sprengisand og á öllu Þjórsár-/Tungnaársvæðinu og síðan á svæðum norður um og austur um land sem líka eiga í erfiðleikum með að ná fjarskiptum á annan hátt.

Spurningin er gagnvart Alþingi Íslendinga hvort það á að gera fyrirtækinu kleift að hleypa fyrirtækjum inn á þetta net sem er myndarlegt og afkastamikið. Ég held að við alþingismenn getum öll verið sammála um að það er auðvitað til hagsbóta fyrir landið allt að nota þær miklu fjárfestingar sem Landsvirkjun hefur farið í til þess að þjóna landinu sem best. Það er mergurinn málsins, að nota kerfið.

Þá er spurningin þessi: Hvernig á að fara í það mál? Eins og málin hafa verið lögð upp fyrir okkur er Landsvirkjun ekki heimilt að gera það á annan hátt en að taka út úr fyrirtækinu eða slíta út úr fyrirtækinu þann þátt sem sinnir fjarskiptum, stofna um það sérfyrirtæki til að geta fengið öðrum aðgang og láta það fyrirtæki starfa fyrir eigin reikning og vera óháð öðrum rekstri Landsvirkjunar.

Eins og málið hefur verið lagt upp eru stórir aðilar sem þegar hafa haslað sér völl á fjarskiptasviði sem hafa lýst miklum áhuga á því að komast inn í möguleikana á notkun á þessu kerfi. Þannig hefur þetta verið lagt upp fyrir okkur þingmönnum. Þetta mikla símakerfi er fýsilegt eða eftirsóknarvert að fá til notkunar hjá mörgum aðilum og eru einkafyrirtæki í símarekstri jafnt sem ríkisfyrirtæki sem hafa lýst áhuga á því. Þannig hefur málið verið lagt upp.

Það sem á að vera átök um er hvernig þetta er gert. Ég hef engan heyrt, hvorki í nefnd né þingsal, sem er á móti því að við notum þessar fjárfestingar. Við verðum að átta okkur á því, hv. þm., að Landsvirkjun er ekki bara eitthvert fyrirtæki úti í bæ, Landsvirkjun er eign ríkis, borgar og bæjar. Landsvirkjun er að 48% hlut eign ríkis og eignarhlutur borgar er svipaður og Akureyrarbær er með um 5% eignarhlut. Landsvirkjun er opinbert fyrirtæki og Landsvirkjun lýtur stjórn stjórnar sinnar sem á að gæta hagsmuna þessara rekstraraðila, ríkis, borgar og Akureyrarbæjar.

Fyrir mér er þetta málið pólitískt séð: Hvernig á að standa að því að hleypa öðrum notendum inn á þetta kerfi? Ég geri mér fulla grein fyrir því að í svona máli eru gríðarleg átök úti í samfélaginu vegna þess að menn hafa verið að koma upp búnaði fyrir sig. Það gildir ekki bara í fjarskiptum vegna þess að ef við erum að tala um öryggiskerfið, það hefur t.d. ekki verið þrautalaust að samhæfa björgunarsveitir í landinu. Ég geri mér grein fyrir því að málið er mjög snúið.

[12:00]

Það hefur komið fram í málflutningi hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur og hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að þær telja að málið hafi verið keyrt of hratt í gegnum nefndina. Ég vil taka undir þessa gagnrýni. Ég held að við hefðum átt að bíða og kortleggja betur þá gagnrýni sem komið hefur fram. Við hefðum átt að gera okkur betri grein fyrir afstöðu þeirra sem gagnrýna málið harðlega. Ég tek undir það að þessi hraði var óþarfur og ekki hafi verið ástæða til að vinna málið eins og gert var. Ég tel að það hafi verið ástæðulaust.

Ég gagnrýni líka, sem er algjörlega óviðunandi fyrir Alþingi Íslendinga og mig sem nýjan þingmann, að hvað eftir annað stendur maður frammi fyrir því að fá inn í þingið blöð, þáltill. og lagafrv. um framkvæmdir sem maður hefur á tilfinningunni og sannanir fyrir í mörgum tilfellum að ákveðið hafi verið að fara í fyrir mörgum mánuðum síðan. Slík vinnubrögð eru gagnrýnisverð.

Við ættum að setja fram ramma, heildarlínuna í lagasetningu, sýnina á hvernig við ætlum að fara í málin. Við eigum ekki að þurfa að velta okkur upp úr praktískum málum fyrirtækja eða samtaka sem auðvitað koma í kjölfarið þegar svona umbrot eiga sér stað. Í mínum huga er þetta algjörlega óviðunandi.

Ég komst á þá skoðun að málið hafi verið keyrt of hratt í gegn er ég varð þess áskynja að borist hefðu umsagnir sem gagnrýna harðlega það sem við erum að gera og hvernig við höfum staðið að málum. Í ljósi þess að borist hafa umsagnir sem vert væri að fara yfir og þess að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir hafa ekki haft tækifæri til þess að skila minnihlutaáliti með sinni sýn á meðferð þessa máls þá er ég sammála þeirri kröfu og tek undir hana, að milli umræðna verði málið tekið inn í nefnd á ný og farið yfir þau atriði sem borist hafa og hlaðist upp á undanförnum mánuðum.

Ég endurtek hins vegar að málið snýst fyrst og fremst um hvaða form við ætlum að hafa á þessum hlutum. Við verðum að geta valið milli fleiri tillagna um hvernig eigi að standa að þessari framsetningu.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að teygja þessa umræðu mikið meira en tek undir með hv. þm. og fulltrúum í iðnn., Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur og Rannveigu Guðmundsdóttur, að full ástæða sé til að taka málið inn í nefndina aftur. Ég vil standa að því og skoða þessi mál í nýju ljósi. Ég beini þeim tilmælum til hv. formanns iðnn., Hjálmars Árnasonar, að það verði gert í ljósi nýrra upplýsinga. Ég tel að það þurfi ekki að tefja fyrir málinu en við höfum fullan rétt á að skoða hvort eitthvað hafi komið fram sem leitt gæti til þess að við ættum að fara öðruvísi að.