Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 12:12:55 (6162)

2000-04-07 12:12:55# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[12:12]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Landsvirkjun er opinbert fyrirtæki, 50% eru í eigu ríkisins, 45% í eigu Reykjavíkurborgar og 5% í eigu Akureyrarbæjar. Það er grundvallarskoðun mín og fjölda þeirra sem styðja Sjálfstfl. að rekstur sé almennt betur kominn á hendi einstaklinga en opinberra aðila. Sumir hafa jafnvel kristallað þá hugsun í slagorðunum ,,báknið burt``.

Með þessu frv. er í annað sinn fyrirhugað að víkka út starfssvið Landsvirkjunar. Áður var Landsvirkjun heimilað að taka þátt í ráðgjafarþjónustu í samkeppni við frjálsan markað. Rökin voru þau að nýta ætti sérfræðiþekkingu innan Landsvirkjunar. Nú á hún að fara að taka þátt í fjarskiptum með sömu rökum. Það á að nýta þann búnað sem hún á og hefur rekið í fjölda ára.

Landsvirkjun er á margan hátt vorkunn vegna þess að hún er í samkeppni við raforkuver í eigu sveitarfélaga sem ekki lúta sömu takmörkunum og geta farið út um víðan völl í starfsemi sinni. En þannig háttar til að fjarskipti og raforkudreifing eru æ meira samtvinnuð nú á dögum. Nú orðið er erfitt að greina á milli hvað er raforkuflutningur og hvað fjarskipti. Það vandamál sem við erum að glíma við hér í dag er einmitt afleiðing af þeirri þróun.

[12:15]

Herra forseti. Með þeim rökum sem Landsvirkjun heldur fram, þ.e. að hún fari að nýta eign sína, þá getur hún farið út í ýmsilegt annað. Hún gæti farið að baka brauð og annað slíkt eins og ég hef nefnt. En hún hefði getað farið aðra leið, og því var ekki svarað í hv. iðnn. af hverju hún fór ekki þá leið, þ.e. hreinlega að skilgreina þær þarfir sem hún hefur, það öryggi sem hún þarf að njóta varðandi fjarskipti og kaupa þá þjónustu eins og aðrir símnotendur í landinu. Þá hefði hún aldrei þurft að byggja upp þetta kerfi á sínum tíma. Þá hefði Landssíminn örugglega byggt upp kerfið fyrir hana.

Nákvæmlega það sama gæti hún gert í dag. Hún gæti skilgreint þær þarfir sem hún hefur varðandi öryggi og flutningsgetu og síðan gæti hún selt þetta kerfi sitt sem er ekkert innan húss í Landsvirkjun. Þetta eru ljósleiðarar út um víðan völl og þetta eru örbylgjusendar uppi á hæðum. Hver sem er getur átt þetta. Landsvirkjun gæti jafnvel selt þetta með þeim kvöðum að hún fái þá þjónustu sem hún þarf á að halda í ákveðið árabil, segjum tíu ár, og síðan sé henni heimilt að bjóða það út. Þannig hefðu menn getað leyst þetta vandamál og Landsvirkjun hefði getað einbeitt sér að því sem hún væntanlega kann best, þ.e. að framleiða, dreifa og flytja raforku. En, nei, eins og alltaf með opinber fyrirtæki þá skal hún taka yfir fleiri og fleiri svið.

Herra forseti. Hvað þýðir þetta litla frv. sem er nú bara ekki nema örstutt: ,,svo og aðild að fjarskiptafyrirtækjum``? Hvað þýðir það? Það þýðir að Landsvirkjun getur keypt hluti í einu eða fleiri fyrirtækjum og hún getur keypt þau í heilu lagi. Hún gæti t.d. keypt Landssímann bara í einum bita og er sennilega eini innlendi aðilinn sem hefur nægilega sterka eiginfjárstöðu til að gera það. Þegar þetta frv. hefur verið samþykkt þá gæti komið upp sú staða að hún keypti annaðhvort Landssímann eða Tal eða eitthvert annað fyrirtæki sem er á markaði.

Í samræmi við grundvallarhugsun mína sem ég gat um áðan og grundvallarskoðun þá er ég á móti því að hið opinbera víkki svona út starfssvið sitt. Ef aftur á móti væri búið að einkavæða Landsvirkjun sæi ég ekkert athugavert við þessa þróun, ekki nokkurn skapaðan hlut. Þá er það ekki mál löggjafans hvort eitthvert einkafyrirtæki fari út í að baka brauð eða stunda fjarskipti.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara yfir þá sögu sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir rakti svo ítarlega. Hún er mjög flókin. Hún er um margt undarleg og hún er enn að gerast. Hún gerist á hverjum degi og hún ber keim af harðvítugri markaðsbaráttu erlendra fjarskiptarisa sem standa þarna á bak við. Og hún ber keim af baráttu innlendra opinberra aðila, rafrorkurisa, þ.e. ríkisins í Landsvirkjun og Reykjavíkurborgar í Línu.Net. Þetta er slagur opinbera aðila. Einkaaðilar koma þar lítt nærri og ef þeir voga sér þá eru þeir troðnir undir í slagnum, eins og örlög Irju eru glöggt dæmi um.

Herra forseti. Nú er okkur sagt að stefnt sé að markaðsvæðingu raforkukerfisins og það eigi að auka samkeppni þar og það er í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Og hluti af því er að einkavæða þessi fyrirtæki. Ég sé ekki aðra lausn til að ná fram samkeppni og þá leysist þetta mál af sjálfu sér. Ég sé því ekki að þetta sé neitt ákaflega mikið vandamál. Engu að síður er ég á móti þessu frv. vegna þess að Landsvirkjun er enn þá opinbert fyrirtæki og ég er á móti því að víkka út opinberan rekstur.

Varðandi afgreiðsluna í hv. iðnn. þá var ég ekki á móti því að taka málið út. Þetta er einfalt mál og mér fannst á þeim tímapunkti að það væri útrætt. Ég hafði sett mig nokkuð vel inn í þá þróun sem hafði gerst varðandi Línu.Net, Irju og allt þetta kerfi sem menn hafa verið að búa til þannig að ég taldi mig vera svona nokkuð vel inni í því. Síðan hefur ýmislegt gerst, en það hefði ekki breytt því að ég taldi rétt að taka málið út. Ég var hins vegar á móti því og því lýsti ég yfir og skrifa þar af leiðandi ekki undir álitið og ég mun greiða atkvæði gegn þessu frv. þegar það kemur til afgreiðslu hér af þeirri ástæðu að ég er á móti því að hið opinbera sé að leggja undir sig allt atvinnulífið.

Ég get hjartanlega tekið undir með hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni að það er óþolandi og stórhættulegt fyrir lýðræðið að hingað inn á Alþingi komi frv. og þáltill. sem búið er að semja um, sem alþingismönnum er gert að skrifa upp á. Það er óþolandi og það er ljóst í þessu dæmi að búið var að stofna það fyrirtæki sem við höfum rætt hér. Það var búið að gera samninga við erlenda fjarskiptarisa upp á fleiri hundruð millj. kr. og það var sem sagt búið að reikna með því að Alþingi mundi samþykkja frv. Svona vinnubrögð held ég að séu mjög slæm. Við erum að sjá þetta aftur og aftur. Við ræddum í gær um búvörusamninginn. Þar er ekki hægt að breyta neinu, ekki í skynsemisátt, ekki neinu. Það er búið að skrifa undir þann samning. Og þó að hv. þingmenn kæmust að einhverjum lapsus eða galla í því samkomulagi og ætli sér að laga hann, þá er það ekki hægt. Umræðan er óþörf þegar svona stendur á.

Við sjáum þetta víðar. Við sjáum þetta í skattamálum t.d. varðandi þau frv. sem hér liggja fyrir í skattamálum og eru afrakstur af samkomulagi aðila vinnumarkaðarins. Þar má heldur ekki breyta neinu. Þingmenn hafa í rauninni ekkert um að ræða. Og þó að menn hafi kannski aðrar skoðanir eða komist að einhverri annarri skynsamlegri lausn í umræðuni þá er engu hægt að breyta vegna þess að þetta er hluti af samkomulaginu.

Þetta er orðið mjög hættulegt og hefur reyndar viðgengist mjög ríkum mæli á undanförnum árum og ég held að hv. þm. ættu að skoða sinn hug í því hvar frumkvæði að lagasetningu yfirleitt liggur. Ég hef sagt það mörgum sinnum að hv. þingmenn samþykki ekki eitt einasta frv. sem þeir hafa samið sjálfir nema kannski eitthvert smotterí um þingfararkaupið eða þingsköpin. Enn hefur nú ekki komið upp sú staða að einhverjir aðilar úti í bæ séu að gera ályktarnir um þingsköpin. En hins vegar varðandi þingfararkaupið þá er það iðulega undir hæl annarra aðila úti í bæ þannig að þingmenn geta ekki einu sinni rætt það.

Öll þau frv. sem við samþykkjum eru samin annars staðar. Og sá sem semur frv. hefur frumkvæðið að gerð þess og hann ræður eiginlega öllu um það hvernig það lítur út. Þetta er því orðið mjög hættulegt fyrir þingræðið og þar með lýðræðið. Þetta er nokkuð sem ég hef margoft bent á.

En varðandi þetta frv. þá tel ég að það sé slæmt að víkka þannig út starfssvið Landsvirkjunar, opinbers fyrirtækis, og ég mun greiða atkvæði gegn því.