Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 12:25:02 (6164)

2000-04-07 12:25:02# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[12:25]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gerir ekki mun á ríki og einstaklingum, þeim einstaklingum sem mynda ríki. Hann gerir ekki mun á þjóð og ríki. Ég bendi á að víða í heiminum eru margar þjóðir innan sama ríkis og víða í heiminum er sama þjóðin í mörgum ríkjum. Einu sinni tilheyrðu Íslendingar dönsku ríki en töldu sig samt vera Íslendinga og alls ekki Dani. Það að gera ekki mun á einstaklingum og ríki eru því mistök sem menn gera mjög oft. Sagt er: ,,Við tölum fyrir hönd ríkisins. Við erum hérna að vinna fyrir hönd ríkisins. Landsvirkjun er eign þjóðarinnar og þar með einstaklinganna.`` En það er bara ekki rétt. Minn flokkur berst fyrir einstaklinginn. Hann berst fyrir réttindum og sjálfstæði einstaklingsins og frumkvæði hans. Þar af leiðandi er hann á móti opinberum fyrirtækjum sem ekki eru í eigu einstaklinga heldur í eigu ríkisins eða sveitarfélaga. Sveitarfélag er ekki hið sama og þeir einstaklingar sem búa í sveitarfélaginu. Hér er um að ræða grundvallarmismun á skoðunum eða því hvernig menn líta á hlutina og kristallast mjög oft í þeirri umræðu sem við eigum á Alþingi. Menn setja samasemmerki, þ.e. vinstri menn, milli ríkis og einstaklinga og segja að einstaklingarnir eigi þetta og hitt ríkisfyrirtækið. En þannig er það ekki. Ég held að sé mjög mikilvægt að við stöndum vörð um það að einstaklingar og fyrirtæki þeirra geti haslað sér völl í atvinnulífinu.