Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 14:06:24 (6178)

2000-04-07 14:06:24# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[14:06]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sá ástæðu til að koma hér upp til að taka undir málflutning hv. þm. Árna R. Árnasonar um það hvernig við nálgumst þessi mál. Það er mergurinn málsins og ég er sammála honum um það. Í ræðu minni áðan áréttaði ég að það er náttúrlega mjög mikilvægt fyrir okkur að nota þau verðmæti sem við eigum, sem eru í eigu Reykjavíkurborgar, ríkisins og Akureyrarbæjar. Umræðan hér á náttúrlega fyrst og fremst að snúast um það hvernig við förum að því að nota þau verðmæti. Það eru sjálfsagt mörg form á því en ein leiðin sem er fær er að gera hlutafélag um flutningsleiðirnar og hleypa aðilum inn til notkunar eða samvinnu um slíkan rekstur. Það er ein leiðin. Kannski eru fleiri leiðir. Ég vil líka nota þetta tækifæri til að benda hv. þingmönnum á að það er náttúrlega ákaflega mikilvægt fyrir landið í heild sinni að þau verðmæti sem eru um Kjöl, Þjórsár- og Tungnaársvæðið, Suðurland, upp Hvalfjörð, norður í land til Akureyrar, Húsavíkur og Kröflu séu notuð. Það gefur augaleið. Ég sakna þess í umræðunni og vil árétta að eigum við að standa hér til þess að finna leiðir eða takast á um form á því hvernig við eigum að nota þessi verðmæti öllum til hagsbóta.