Veiðieftirlitsgjald

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 14:18:53 (6184)

2000-04-07 14:18:53# 125. lþ. 95.31 fundur 543. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (heildarlög) frv. 33/2000, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[14:18]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég hef út af fyrir sig ekki mikið að athuga við þá tilraun til að koma betra skipulagi á innheimtu þessara gjalda sem gerð er í þessu frv. Ég vil þó að fram komi að ég tel að ef eðlilega væri staðið að þessum málum og aflaheimildir væru leigðar út til skipa almennt þá mætti einfalda þessa hluti mikið. Þá kæmi innheimta á slíkum gjöldum inn í leigu aflaheimilda sem þannig færi fram.

Út af fyrir sig er ekki endilega þörf á að búa til mjög margar tegundir af gjöldum, aðalatriðið er hve mikið verður til ráðstöfunar. Auðvitað hefur útgerðin ekki greitt nægilega fyrir aðganginn að auðlindinni fram að þessu. Það hefur þó verið gert með ýmsum hætti og miðað við það kerfi sem nú er uppi er sjálfsagt hægt að segja að stuðningur sé við að einfalda kerfið sem nú er til staðar. Ég mun auðvitað taka þátt í því að fara yfir þetta mál í hv. sjútvn. Þar hljóta menn að velta þessum hlutum betur fyrir sér, hvort þessi leið sé nægilega víðtæk, hvort menn geti kannski fundið leið til að einfalda innheimtuna frekar eða hvort einhver önnur gjöld koma til greina en þau sem fram að þessu hafa verið innheimt af útgerðinni. En ég segi aftur: Allt hangir þetta saman við þá stefnu sem tekin verður í þessum málum varðandi raunverulega innheimtu afgjalds af nýtingu fiskstofnanna og ætti auðvitað að skoðast í því samhengi. Þeir sem eru við völdin núna hafa fram að þessu ekki viljað ræða þau mál í fullri alvöru. Þess vegna er kannski eðlilegt að frá þeim komi tillögur af þessu tagi sem miðast við óbreytt ástand.