Gjaldtökuákvæði nokkurra laga á sviði sjávarútvegs

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 14:26:50 (6187)

2000-04-07 14:26:50# 125. lþ. 95.32 fundur 544. mál: #A gjaldtökuákvæði nokkurra laga á sviði sjávarútvegs# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2000, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[14:26]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er út af fyrir sig ágæt spurning frá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur. Lykilatriðið í þessu felst í orðinu sjálfvirkni, það er verið að stöðva sjálfvirkni hækkananna. Út af fyrir sig er ekki gengið út frá því að ekki verði um hækkanir að ræða en þær ákvarðanir þarf þá að taka sérstaklega. Mér finnst mjög líklegt að þegar hækkanir verða lagðar til verði stuðst við sams konar vísitölur og gert hefur verið fram til þessa. Breytingin felst í því að hækkunin verður ekki sjálfvirk þó hún verði líklega svipuð og hún hefði orðið með fyrra fyrirkomulagi. Eins og farið var rétt með í tilvitnuninni þá er það stefna ríkisstjórnarinnar og hefur verið um nokkuð langa hríð að draga úr sjálfvirkum vísitöluhækkunum.