Innheimtustofnun sveitarfélaga

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 14:38:23 (6195)

2000-04-07 14:38:23# 125. lþ. 95.35 fundur 545. mál: #A Innheimtustofnun sveitarfélaga# (kröfufyrning barnsmeðlaga) frv. 62/2000, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[14:38]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir máli sem er fyrst og fremst tæknilegs eðlis. Fram til þessa hefur það verið skilningur stjórnenda Innheimtustofnunar sveitarfélaga að meðlagsgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins sem endurkrafin er af Innheimtustofnuninni hjá meðlagsskyldu foreldri sé samkvæmt lögum endurkrafa vegna þegins sveitarstyrks.

Í 5. mgr. 1. gr. fyrningarlaga er gert ráð fyrir því að slík krafa fyrnist ekki. Þessi lagatúlkun hefur oftsinnis verið staðfest af dómstólum, síðast árið 1983. Í nýlegu dómsmáli var henni hins vegar hafnað, bæði í héraðsdómi og fyrir Hæstarétti í dómi frá 24. ágúst 1999. Niðurstaðan byggist á því að kröfur þessar fyrnist á fjórum árum.

Ekki mun vera um að ræða dóm sem hefur mikil áhrif á starfsemi stofnunarinnar. Þau áhrif sem það mun þó hafa á fjárhag hennar, ef ekkert er að gert, eru fyrst og fremst að stofnunin tapar kröfum við eftirgreindar aðstæður, þ.e. að meðlagskröfur á hendur feðrum vegna barna sem eru t.d. ekki feðruð fyrr en mörgum árum eftir fæðingu, glatast að stórum hluta. Slík mál eru ekki mjög algeng hérlendis en eru þó til. Aðrar meðlagskröfur fyrnast á fjórum árum nema fyrning sé rofin, t.d. með aðför hjá viðkomandi skuldara. Þetta þýðir að stofnunin verður að hefja innheimtuaðgerðir á a.m.k. fjögurra ára fresti vegna meðlagsskulda sem falla í vanskil. Slíkt er ekki ávallt unnt, t.d. í mörgum þeim tilvikum sem meðlagsskuldari býr erlendis eða afplánar fangavist. Þar fyrir utan er af því fyrirhöfn og umstang og svekkelsi fyrir alla aðila.

Lögð er til í frv. sú breyting á lögunum um Innheimtustofnun sveitarfélaga að kröfur til endurgreiðslu barnsmeðlaga og sérstakra framlaga skv. 15. gr. barnalaga, sem eru greidd fyrir milligöngu opinberra aðila, fyrnist framvegis á 10 árum.

Ég undirstrika að þessi breyting á ekki að vera íþyngjandi fyrir skuldara. Það er vandræðafyrirkomulag að láta Innheimtustofnun sveitafélaga standa í því að greiða þessar skuldir fyrir óskilvísa meðlagsgreiðendur og nú munu útistandandi skuldir Innheimtustofnunar, miðað við síðustu áramót, vera í kringum 6,5 milljarðar.

Að lokinni umræðunni legg ég til, herra forseti, að málinu verði vísað til athugunar í hv. félmn.