Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 14:47:04 (6197)

2000-04-07 14:47:04# 125. lþ. 95.34 fundur 525. mál: #A Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[14:47]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þegar yfirfærsla á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga var ákveðin með lögum nr. 161/1996, var ljóst að sá tilflutningur næði ekki til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Það lá fyrir að um leið og yfirfærslan var ákveðin þyrfti að setja sérstök lög um þá stofnun.

Frv. er að miklu leyti byggt á 16. gr. laga um málefni fatlaðra. Þar er að finna ítarlega skilgreiningu á starfsemi Greiningarstöðvarinnar sem hefur lögbundið hlutverk og að lögbundið hlutverk stöðvarinnar haldist óbreytt að mestu frá því hún hóf starfsemi sína í janúar 1986 og þá eftir eldri lögum um málefni fatlaða frá 1983.

Greiningarstöðin hefur frá upphafi þjónað öllu landinu og starfa þar sérfræðingar á flestum sviðum fötlunar. Vaxandi eftirspurn hefur verið í gegnum árin eftir þjónustu stöðvarinnar og á síðasta ári var rúmlega 200 börnum og ungmennum vísað til athugunar og ráðgjafar. Fagleg starfsemi Greiningarstöðvarinnar hefur verið í þróun undanfarin ár og var innra skipulag stöðvarinnar endurskoðað 1997. Þá var sérhæfing efld og skilvirkni bætt svo og samvinna, stuðningur og ráðgjöf við þjónustuaðila utan stofnunar, svo sem leikskóla og skóla og aðrar stofnanir þar sem fatlaðir sækja þjónustu. Þá hefur fræðsluhlutverk stöðvarinnar verið eflt verulega. Þessara breytinga sér stað í frv. auk þjónustu við fatlaða einstaklinga. Er í frv. lögð sérstök áhersla á faglega aðstoð og ráðgjöf til samstarfsaðila, þar á meðal félagsþjónustu sveitarfélaga.

Starfsemi stofnunarinnar verður að því leyti löguð að breyttri skipan þjónustu við fatlaða við yfirfærslu málaflokksins til sveitarfélaga. Jafnframt eru skilgreind samskipti við aðra þá sem sinna þjónustu sveitarfélaga, svo sem sérfræðiþjónustu sem rekin er af sveitarfélögunum samkvæmt lögum um leikskóla og grunnskóla.

Lögð er áhersla á að efla hlutverk Greiningarstöðvarinnar á sviði rannsókna, fræðslu og þekkingaröflunar, auk geiningar og ráðgjafarstarfsemi hennar. Það hefur þó ekki í för með sér meiri umsvif og kostnað en nú er, heldur breyttar áherslur til að tryggja faglega framþróun á þessu þýðingarmikla sviði hér á landi. Að vísu getur að sjálfsögðu orðið af þessu meiri kostnaðarauki, það fer eftir því hvað menn leggja mikinn metnað í verkefnið og t.d. virðist vera sífellt meiri þörf á að sinna greiningu á einhverfum og þeim fer mjög fjölgandi.

Á fjárlögum ársins 2000 eru 113 millj. kr. ætlaðar til Greiningarstöðvarinnar. Við fjárlagagerð næsta árs er ósk Greiningarstöðvarinnar um að fá 123 millj., þ.e. hækkun um 10 millj., og auk þess hefur myndast hali hjá Greiningarstöðinni upp á 21 millj. kr. Hér er því um talsverða fjármuni að ræða sem varið er í þetta mikilvæga verkefni.

Svo háttar til um þetta frv. eins og það frv. sem ég var að mæla fyrir rétt áðan, að það er fylgifrv. með félagsþjónustufrv. Ég legg til að það fari til hv. félmn. en legg ekki áherslu á að það verði afgreitt sem lög á þessu þingi.