Réttindagæsla fatlaðra

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 14:58:39 (6203)

2000-04-07 14:58:39# 125. lþ. 95.36 fundur 419. mál: #A réttindagæsla fatlaðra# frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[14:58]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um réttindagæslu fatlaðra og þar á undan um breytingu á lögum um vinnumarkaðsaðgerðir og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Við þekkjum öll hér inni að þessi mál eru komin til vegna þess að verið er að steypa saman tvennum lögum, þ.e. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðra. Félagsþjónustulögin eru þegar komin til nefndar og það verður svo með öll þessi frv. að leitað verður umsagna. Þau koma því aftur til umræðu í þinginu í haust og þarf að mæla fyrir þeim aftur, enda stórt mál á ferðinni og mjög mikilvægt að tryggja að allir hnútar séu hnýttir.

Aðeins varðandi réttindagæsluna. Þetta er sérstaklega mikið mál fyrir hinn fatlaða. Hins vegar var auðvitað hugmyndafræðileg vinna um það og umræða hvort ætti ekki að falla frá sérlögum og fella í rauninni öll þessi mál inn í félagsþjónustuna en meðan ekki er alveg trygging fyrir því að allir hlutirnir gangi upp, þá gerðist það ekki og þar var hlustað sérstaklega á Þroskahjálp.

Það er talað um að það verði kannski um fjögurra ára tímabil sem við látum á þetta reyna.

[15:00]

Ég hefði kosið að sjá þetta ákvæði inni í lögunum vegna þess að hér er ekki eingöngu spurning um fatlaða. Þetta er líka spurning um börn og aldraða þannig að ég hefði gjarnan viljað sjá meiri breidd. Hins vegar er mjög mikilvægt að huga að því úr því við erum með sérstakt frv. um réttindagæsluna hvort við hefðum kannski átt að stíga skrefið lengra og vera með umboðsmann fatlaðra. Það hafa Þroskahjálp, Öryrkjabandalagið og fleiri lagt mjög mikla áherslu á. Í Svíþjóð og í Noregi er svonefndur ,,den gode mand`` sem er nokkurs konar trúnaðarmaður.

Ef við skoðun 3. gr. sjáum við að í rauninni er allt undir því komið hver sá einstaklingur er sem verður þessi réttargæslumaður. Þar sem samtökin hafa um það að segja hverjir verða trúnaðarmenn, þá er líka spurning hvort þau ættu ekki líka að hafa um það að segja hver verði réttindagæslumaður þar sem það er í rauninni það sem skiptir meginmáli fyrir að allt þetta gangi upp. Við fáum eflaust umræður um það í nefndinni hversu margir eða fáir eiga að vera á hverju svæði til að tryggja lögboðna þjónustu. Þetta hangir líka saman við að tryggja t.d. fulltrúum hagsmunasamtakanna áheyrn, t.d. í félagsmálanefndum sveitarfélaga. Það er líka eitt sem við þurfum að skoða í þessu samhengi. Í Reykjavík eru aldraðir með áheyrnarfulltrúa í félagsmálaráði og mér finnst að við í félmn. eigum að skoða að fulltrúar hagsmunasamtaka eigi líka sinn áheyrnarfulltrúa innan Félagsþjónustunnar þegar þetta verður fært yfir til sveitarfélaganna þar sem þessi þjónusta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þennan hóp.

Núna á sem sagt að vera þessi eftirlitsnefnd og annað er mjög mikilvægt, þ.e. hverju við þurfum að breyta þegar við verðum búin að fara ofan í þær umsagnir sem koma. Ég veit að mjög mikil vinna hefur farið fram bæði með samtökunum og í þeim vinnuhóp sem var með þessa lagasmíð. Ég veit því að við eigum eftir fá mjög miklar og góðar umræður eftir að umsagna hefur verið leitað í félmn.