Réttindagæsla fatlaðra

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 15:02:44 (6204)

2000-04-07 15:02:44# 125. lþ. 95.36 fundur 419. mál: #A réttindagæsla fatlaðra# frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[15:02]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið er hér um fylgifrv. að ræða með félagsþjónustufrv. og við munum væntanlega taka allan þennan málaflokk til umræðu aftur á næsta hausti. En ég vildi halda því til haga að varðandi réttindagæslumálin hefur það verið skoðun mín og hefur væntanlega komið áður fram á Alþingi að það ættu að vera hagsmunasamtökin sem sinntu réttindagæslunni. Mér þykir miður að ekki skyldi farin sú leið og raunar að hagsmunasamtökin hafi ekki fallist á þá skoðun að þau mundu sinna hagsmunagæslunni.

En þetta var sem sagt niðurstaðan. Hér er annars vegar um að ræða einn réttindagæslumann sem þjónar öllu landinu og hins vegar trúnaðarmannakerfi þar sem trúnaðarmenn verða skipaðir í öllum kjördæmum landsins og þá teldi ég heppilegt að þessir trúnaðarmenn ynnu með stofnunum félmrn. sem eru út um allt land en það eru svæðisvinnumiðlanirnar. Þeir gætu því haft þar athvarf eða aðstöðu og réttindagæslumaðurinn tengdist þá Vinnumálastofnun í Reykjavík. Þó svo málasviðin fari kannski ekki nákvæmlega saman tel ég mikilvægt að þarna sé unnið í nokkurri sameiningu af því þarna eru málefni sem falla undir eitt ráðuneyti og gætu að mínu áliti farið ágætlega saman.