Matvæli

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 15:05:05 (6205)

2000-04-07 15:05:05# 125. lþ. 95.37 fundur 554. mál: #A matvæli# (eftirlit, gjaldskrá o.fl.) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[15:05]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Frv. það sem ég mæli fyrir um breytingu á lögum nr. 93/1995, um matvæli, er samið í umhvrn. í framhaldi af tillögum nefndar sem starfaði í desember sl. og fékk það hlutverk að gera tillögur um hvernig bregðast skyldi við niðurstöðum skýrslu sem tekin var saman í nóvembermánuði sl. um útbreiðslu kampýlóbakter í umhverfi, húsdýrum og matvælum, og um orsakir sýkinga í mönnum. Meðal tillagna nefndarinnar eru breytingar á lögum nr. 93/1995, um matvæli, auk annarra, svo sem um breytingu á sóttvarnalögum en frv. þar að lútandi hefur hæstv. heilbrrh. þegar lagt fyrir Alþingi.

Megintillögur nefndarinnar beinast að aðgerðum til þess að draga úr tíðni kampýlóbakter í afurðum alifugla, með því m.a. að fækka menguðum eldishópum alifugla, fyrirbyggja krosssmit eins og hægt er og auka eftirlit og vöktun, en einnig að auka fræðslu til almennings og matvælafyrirtækja um smitleiðir og rétta meðferð matvæla. Til þess að tryggja framgang þeirra meginmarkmiða sem fram koma í tillögum nefndarinnar, þ.e. að ná niður kampýlóbaktermengun í matvælum og sýkingum af völdum kampýlóbakter í mönnum, er nauðsynlegt að auka fræðslu, eftirlit og vöktun. Til þess að svo megi verða þarf að breyta lögum um matvæli.

Þær breytingar sem fólgnar eru í frv. því sem ég mæli fyrir taka mið af því að hægt sé að grípa til þess ráðs að setja reglur um að starfsfólk, sem starfar við matvælaframleiðslu og dreifingu matvæla, hafi til að bera grundvallarþekkingu á meðferð matvæla, ekki síst með hliðsjón af eigin öryggi og innra eftirliti sjálfra fyrirtækjanna. Slík ákvæði er t.d. að finna í nýrri matvælalöggjöf í Danmörku og hefur því verið fylgt eftir með námskeiðum fyrir starfsfólk í matvælafyrirtækjum.

Því er lagt til í a-lið 1. gr. að hlutaðeigandi ráðherra, sem getur verið umhverfisráðherra, landbúnaðarráðherra eða sjávarútvegsráðherra eftir því um hvers konar eftirlit er að ræða, geti sett reglur þess efnis að þeir sem starfa við framleiðslu og dreifingu matvæla sæki námskeið um meðferð matvæla og að á slíkum námskeiðum verði lögð sérstök áhersla á innra eftirlit og öryggi matvæla. Mikið skortir á að þeir sem starfa við matvælaframleiðslu hér á landi hafi til þess nægjanlega þekkingu eða hljóti fullnægjandi fræðslu áður en þeir taka til starfa. Ekki er óalgengt að starfsfólk sé ráðið og sett í störf við matvælavinnslu án nokkurs undirbúnings. Með hliðsjón af þessu er nauðsynlegt að hægt sé að setja reglur til þess að tryggja þekkingu starfsfólks.

Einn þáttur í því að tryggja framgang mála er sú ótvíræða skylda sem eftirlitsaðilar verða að bera til þess að reyna að fyrirbyggja að matvæli geti valdið heilsutjóni og grípi til viðeigandi ráðstafana ef vart verður við matarsjúkdóma eða smithættu.

Því er lagt til í b-lið 1. gr. að eftirlitsaðilar skuli vinna að því að fyrirbyggja að matvæli geti valdið heilsutjóni og skuli grípa til viðeigandi ráðstafana ef vart verður við matarsjúkdóma eða smithættu. Með þessu er verið að taka af allan vafa um skyldu þessara aðila til að vinna að forvörnum og upplýsa mál sem upp kunna að koma þannig að gripið verði til viðeigandi ráðstafana eins fljótt og kostur er og áður en í óefni er komið.

Nokkuð hefur verið á reiki hvaða skyldur þeir sem annast rannsóknir og greiningu á matvælum til að tilkynna til viðkomandi stofnana ef hætta getur stafað af neyslu matvæla. Slík tilkynningarskylda er nauðsynleg ef niðurstöður greininga eða rannsókna gefa til kynna að hætta sé á heilsutjóni. Enn fremur er nauðsynlegt að takmarka tilkynningarskyldu rannsóknar- og greiningaraðila við þær örverur sem geta valdið sjúkdómum í mönnum sem eru tilkynningarskyldir samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga, nr. 19/1997, og því er nauðsynlegt að tengja framkvæmdina við sóttvarnalög. Um þetta er mælt fyrir í 2. gr. frv.

Um leið er eðlilegt að þeim sem sinna opinberu eftirliti og þeim sem sinna innra eftirliti í matvælafyrirtækjum beri skylda til að upplýsa hlutaðeigandi, þ.e. Hollustuvernd ríkisins, yfirdýralækni og sóttvarnalækni, um gögn sem þeir hafa undir höndum eða ástæður sem geta bent til hættu á heilsutjóni vegna neyslu matvæla. Þetta ákvæði mun að sjálfsögðu gilda jafnt um allar rannsóknastofur, óháð því hvort þær eru reknar á vegum hins opinbera eða eru í einkaeign og hvort rannsókn eða greining sýna er gerð fyrir matvælafyrirtæki, aðra einkaaðila eða opinbera aðila. Með sama hætti á tilkynningarskylda jafnt við um opinberan eftirlitsaðila og sjálfstætt starfandi skoðunarstofu.

Að öðru leyti eru gerðar breytingar á lögunum, annars vegar með hliðsjón af því að heiti laga um heilbrigðiseftirlit og hollustuhætti hefur verið breytt í heilbrigðiseftirlit og mengunarvarnir, sbr. lög nr. 7/1998, sbr. nánar 3. gr. laganna, og hins vegar í tengslum við setningu gjaldskrár vegna útgáfu starfsleyfa og vottorða skv. VIII. og IX. kafla laganna.

Setja þarf í lögin sambærileg ákvæði um gjaldtökuheimildir og gjaldskrár og sett hafa verið inn í önnur hliðstæð lög á undanförnum árum, sbr. nánar 4. gr.

Virðulegur forseti. Ég vil í lokin geta þess að aðgerðir sem gripið var til á síðasta ári tóku að skila merkjanlegum árangri í lægri tíðni kampýlóbakter í kjúlkingaeldishópum undir lok síðasta árs. Það sem af er þessu ári hefur tíðni bakteríunnar í eldishópum verið mjög lág. Í framhaldi af aðgerðum í kjúklingaeldinu var gripið til aðgerða á síðari framleiðslustigum, þ.e. í flutningum og slátrun. Svo virðist sem verulegur árangur af þessum aðgerðum hafi komið fram í marsmánuði enda hefur bakterían ekki fundist í ferskum kjúklingum sem framleiddir voru eftir 3. mars sl. Það bera að fagna sérstaklega þessum árangri. Náist þessi árangur til frambúðar eru bundnar vonir við að verulega dragi úr sýkingum á mönnum á næstu mánuðum miðað við tvö undanfarin ár.

Bráðabirgðasamantekt á fjölda sýkinga í mars gefur vísbendingu um að kampýlóbaktersýkingum fari fækkandi. Það verður þó ekki fyrr en að nokkrum mánuðum liðnum að hægt verður að fullyrða um hvort það hefur gerst.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hæstv. umhvn.