Matvæli

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 15:12:03 (6206)

2000-04-07 15:12:03# 125. lþ. 95.37 fundur 554. mál: #A matvæli# (eftirlit, gjaldskrá o.fl.) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[15:12]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það frv. sem liggur frammi um breytingu á lögum nr. 93/1995, um matvæli, er flutt í framhaldi af skýrslu sem gerð var um útbreiðslu kampýlóbakter í umhverfi, húsdýrum og matvælum og orsakir sýkinga í mönnum ásamt tillögum til aðgerða sem skilað var til ráðuneytisins í nóvember sl., eins og stendur hér í athugasemdum við þetta frv. Jafnframt er lagt til í frv. að auka fræðslu, eftirlit og vöktun því það sé nauðsynlegt til að breytingar á þessum lögum nái fram að ganga og hef ég ekki nema gott um það að segja. Ég held einmitt að það kunni að skila sér í þessum geira. Enn fremur er brýnt, segir hér, að sú ótvíræða skylda verði lögð á eftirlitsaðila að þeir reyni að fyrirbyggja að matvæli geti valdið heilsutjóni og grípi til viðeigandi ráðstafana ef vart verður við matarsjúkdóma eða smithættu.

Það er einmitt þarna sem hundurinn liggur grafinn. Það veldur vissulega vaxandi áhyggjum manna að það virðist vera æ erfiðara um þessar mundir að koma þeim matvælum sem hér á landi eru framleidd þannig til neytenda að þau valdi ekki heilsutjóni þegar verst lætur, a.m.k. truflunum á góðri heilsu. Auðvitað verður að grípa til víðtækra ráðstafana til að koma í veg fyrir að þessu fari svona fram. Það hefur að sumu leyti verið gert. Það hefur verið gripið til aðgerða eins og hæstv. umhvrh. vísaði hér til gegn kampýlóbakter sem ástæða er til að ætla að séu að skila verulegum árangri.

[15:15]

En það er meiri óhollusta á kreiki og aðrar bakteríur valda vaxandi áhyggjum sem virðast þó vera að einhverju leyti landshlutabundnar. Það vill nú svo til að héraðsdýralæknirinn á Suðurlandi, hv. þm. Katrín Andrésdóttir, situr hér sem varaþingmaður þessa dagana. Hún er því miður ekki stödd í þingsalnum eins og er. Hún hefur lagt fram till. til þál. sem er einmitt flutt með það í huga að koma á samræmdu eftirliti með matvælum frá ,,haga til maga``, eins og það er orðað í þáltill. sem er hér á dagskrá seinna í dag.

Hv. þm. Katrín Andrésdóttir leggur áherslu á það í tillögu sinni að matvælaeftirlit skuli heyra undir eitt ráðuneyti. Hún tiltekur þar sérstakt ráðuneyti, landbrn., sem hún telur að eigi að vera hið íslenska matvælaráðuneyti og að það muni verða til mjög mikils hagræðis ef þannig verði unnt að koma öllu matvælaeftirliti undir eina stofnun. Nú fellur það undir hinar ýmsu stofnanir sem heyra undir landbrn. en einnig undir umhvrn. eins og frv. ber með sér sem hér er á dagskrá en það er flutt af umhvrh. Hv. þm. Katrín Andrésdóttir, sem því miður er ekki hér viðstödd, telur þetta geta valdið ýmsum vandkvæðum og segir að nærtæk dæmi séu salmonellu- og kampýlóbaktervandamálin, en þar hafi samstarf ýmissa stofnana ekki alltaf gengið sem skyldi. Nú skyldi maður ætla að hv. þm. sem er héraðsdýralæknir að atvinnu einmitt á því svæði sem þessi vandamál hafa komið fram með sem mestum þunga undanfarið, vissi um hvað þarna er að ræða. Ég mundi vilja spyrja hæstv. ráðherra hvernig henni finnst að þessi till. til þál. sem hér liggur frammi og er reyndar til umræðu seinna í dag, komi við þetta frv. til laga sem hér liggur frammi til umræðu.