Landmælingar og kortagerð

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 15:43:35 (6212)

2000-04-07 15:43:35# 125. lþ. 95.38 fundur 555. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn, starfsemi, tekjur) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[15:43]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um landmælingar og kortagerð. Ég vil í upphafi láta í ljós þá skoðun mína að með frv. sé verið að stíga metnaðarfull og framsýn skref. Ég tel að þarna sé verið að taka inn í verkefnasvið Landmælinga Íslands ný verkefni sem fyllilega er ástæða til að bæði skerpa á og finna stoð í lögum og ljóst hverjir eigi að taka á þeim og með ákveðinni metnaðarfullri sýn. Ég vil því láta í ljós ánægju með þá sýn sem þar kemur fram.

Ég vil líka láta í ljós ánægju með þá breytingu að fella niður stjórn í Landmælingum Íslands. Það stjórnsýslulega rugl sem kom upp fyrir nokkrum árum, að skipa stjórnir fyrir A-hluta ríkisfyrirtæki, átti sér varla neina réttarlega stöðu. Eins og hér er líka vikið að í frv. að varðandi réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eru þær kvaðir og ábyrgðir sem þeir bera á A-hluta stofnunum ríkissjóðs alveg skýrar. Því var verið að flækja mál og skapa stjórnsýslulega óvissu með því að skipa stjórnir yfir slíkum stofnum með einhverju framkvæmda- og ráðstöfunarvaldi.

[15:45]

Ég tel þannig að þarna sé stigið mjög skynsamlegt skref. Forstöðumaðurinn er svo ábyrgur gagnvart ráðherra og Alþingi fyrir þeim verkefnum sem honum er trúað fyrir. Hann getur haft fagmenn, fagstjórn og fagdeildir sér til aðstoðar í því. Ég hefði m.a. viljað benda hæstv. umhvrh. á að hún hefði átt að koma þessum skoðunum sínum á framfæri, t.d. þegar verið var að endurgera Byggðastofnun og færa hana undir iðnrn. með skipan stjórnar sem á sér vart heldur neina stjórnsýsluréttarlega stöðu. Þar hefði verið eðlilegra að hafa bara framkvæmdastjóra því að stofnunin heyrir hvort eð er beint undir ráðherrann sem slík og stjórnin því marklítil. Ég vil bara benda hæstv. umhvrh. á að taka samráðherra sína í kennslustund í stjórnsýslulegri stöðu stjórna og forstjóra.

Ég vil líka vekja athygli á því að gert er ráð fyrir að þessi stofnun taki að sér aukin verkefni og geti líka aflað sér tekna á grundvelli verka sinna. Ég tel ekkert óeðlilegt að ríkisstofnun sem þessi, sem hefur ákveðnar skyldur, ákveðin verkefni og einnig ákveðna þjónustuskyldu, ákveðna sölu- og markaðsskyldu á sínum verkum, fái lagalega umgjörð til að selja vöru sína og þjónustu. Ég tel að huga þurfi að því að sú umgjörð sé sem eðlilegust og best þannig að starfsemin þar líði ekki fyrir. Ég vil í því sambandi benda á lögin um virðisaukaskatt varðandi rekstur á ríkisstofnunum. Þar hafa verið mörg óvissuatriði varðandi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðföngum og meðferð virðisaukaskatts.

Ég vil út frá fyrri reynslu benda hæstv. ráðherra á að huga vandlega að því að rekstrarumhverfi ríkisstofnana sé gert sem liðlegast þannig að ekki sé hlaupist undan málinu með því að setja hf. fyrir aftan og selja síðan eða einkavæða vegna þess að stofnunin hafi ekki fundið eðlilega rekstrarfarveg innan síns lagaramma. Ég hvet því hæstv. umhvrh. til að tryggja þetta rækilega þannig að ráðuneytið og stofnunin fái það ekki á sig að nauðsynlegt verði að ,,háeffa`` hana innan nokkurra ára.

Herra forseti. Þetta voru ábendingar mínar varðandi frv.