Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 15:56:47 (6214)

2000-04-07 15:56:47# 125. lþ. 95.39 fundur 556. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (hreindýr) frv. 100/2000, JónK
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[15:56]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég átti sæti í nefndinni sem undirbjó þetta frv. og hæstv. umhvrh. hefur nú rakið efni þess í stórum dráttum. Ég tel að þetta frv. horfi til bóta að flestu leyti og að í frv. sé að finna mikilvægar úrbætur á tilhögun hreindýraveiða, hlutverki hreindýraráðs og vöktun á hreindýrum. Frv. er að mestu samhljóða áliti nefndarinnar en þó hefur einu atriði verið breytt í framlagningu umhvrn. frá því sem nefndin lagði til og var sammála um. Ég hef þess vegna fyrirvara við frv. og vil gera grein fyrir honum.

Nefndin lagði til að Náttúrustofu Austurlands yrði með lögum falið það hlutverk að annast vöktun og rannsóknir á hreindýrum og gera veiðistjóraembættinu og Náttúrufræðistofnun Íslands grein fyrir þeim rannsóknum, þ.e. að tengingin milli þessara stofnana væri á þann veg. Þetta var gert í ljósi þess að þarna væri verið að flytja verkefni til rannsóknastofnunar í héraði, á staðbundnum stofni sem heldur sig á því svæði sem Náttúrustofa Austurlands hefur starfað á, þ.e. stjórn væri flutt heim í hérað.

Ég vil hafa fyrirvara við þetta atriði. Ég vildi gera grein fyrir því hér við 1. umr. málsins og vísa því til hv. umhvn. að skoða þetta ákvæði í starfi nefndarinnar eins og önnur ákvæði frv. að sjálfsögðu. Þó að frv. hafi verið undirbúið af nefnd á það að sjálfsögðu eftir að fá þinglega meðferð. Ég styð öll önnur ákvæði frv. en hef þennan fyrirvara.

Hér stendur reyndar í athugasemdum frv. að æskilegt sé að Náttúrustofa Austurlands sérhæfi sig í vöktun og rannsóknum sem bundnar eru því svæði sem henni er ætlað að starfa á. Og það er gert ráð fyrir að þessi vöktun sé fyrst og fremst ákveðin á grundvelli veiðiþols sem er afskaplega mikilvægt atriði. Allur umgangur um þennan dýrastofn og öll meðferð á honum verður náttúrlega í auknum mæli að byggjast á rannsóknum. Náttúrustofan hefur þegar ráðið sérfróðan mann í þessar rannsóknir og gert samning við hann. Þannig breytir það í sjálfu sér ekki ástandi dagsins í dag þó að frv. verði samþykkt en upp á framtíðina finnst mér, og nefndin sem undirbjó frv. var sammála um það, að festa ætti þetta í sessi með lögum.

Ég vildi gera grein fyrir þessu við umræðuna þannig að hv. umhvn. viti afstöðu mína í þessu efni.