Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 16:16:05 (6218)

2000-04-07 16:16:05# 125. lþ. 95.39 fundur 556. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (hreindýr) frv. 100/2000, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[16:16]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hafa átt sér stað í dag um þetta mál. Mér heyrist vera mikil samstaða og einhugur um málið. Það hafa einungis komið fram smávægilegar athugasemdir að mínu mati, enda tel ég að nefndin sem undirbjó þetta frv. hafi unnið afar vel. Sú er hér stendur reyndi að gera engar breytingar á þeirri nefndarvinnu nema eina smávægilega sem þó hefur talsvert verið til umræðu í dag.

Þessi málefni, hreindýraveiðar, hafa lengi verið mikið deiluefni á Austurlandi. Ég varð vör við það á ferðum mínum um Austurland í sumar þar sem ég hitti aðila sem koma að þessum málum að þeim lá mjög mikið á hjarta um veiðarnar. Þeir töldu að þetta væri þvílíkt hagsmunamál og sögðu af því ýmsar sögur eins og t.d. að rifrildi um hreindýraveiðarnar hefðu nánast klofið hjónabönd, valdið illdeilum í fjölskyldum o.s.frv. Þess vegna fagna ég því ef við erum að ná nokkuð góðri samstöðu um fyrirkomulag þessara veiða. Að vísu á eftir að semja reglugerð og það getur vel verið að það hvíni í einhverjum þegar sú reglugerð verður samin. En ég varð það ánægð með nefndina sem samdi frv. að verði það að lögum mun ég fela þeirri nefnd reglugerðarsmíði þá sem fyrir höndum er varðandi skiptingu arðs af veiðunum.

Sérstaklega hafa komið fram í máli manna athugasemdir um þátt Náttúrustofu Austurlands. Mig langar því að fara nokkrum orðum um það mál því það er það eina sem ég breytti í þeim texta sem kom frá nefndinni. Í tillögu þessarar nefndar frá 16. þessa mánaðar eru lagðar til breytingar á 14. gr. laganna sem fjalla um hreindýr. Þar var lagt til að Náttúrustofu Austurlands væri fengið það lögbundna hlutverk að annast vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum í stað veiðistjóra sem samkvæmt gildandi lögum fer með það hlutverk.

Náttúrustofur sem starfa samkvæmt lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, gegna hvorki stjórnsýsluhlutverki né hafa föst lögbundin verkefni. Því orkar tvímælis að festa í lög tiltekið verkefni einnar náttúrustofu eins og gerð var tillaga um. Það mundi kalla á breytingar á starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands, samanber lög nr. 60/1992, og veiðistjóra, samanber lög nr. 64/1994. Því tel ég fremur óeðlilegt eins og málum er háttað að gera þessa breytingu. En ég vil benda á það sérstaklega hér að umhvrn. mun á næstunni hefja vinnu við endurskoðun laga nr. 60/1992, að því er varðar starfsemi náttúrustofa og verður við þá endurskoðun hægt að líta á þetta mál í heild út frá hlutverki og verkefnum náttúrustofa. Ég tel því eðlilegt að við höfum þann háttinn á að veiðistjóri geri þjónustusamninga við Náttúrustofnun Austurlands um hreindýrarannsóknir. Ég styð það því að Náttúrustofa Austurlands sinni þessu verkefni en með annarri nálgun en hv. þingmenn sem hér hafa rætt málið sjá fyrir sér. Ég sé ekki annan aðila sem getur farið í samkeppni við Náttúrustofu Austurlands um þetta verkefni. Ég sé ekki annan hæfan aðila í augnablikinu sem gæti tekið þetta verkefni til sín í gegnum þjónustusamninga annan en Náttúrustofu Austurlands.

Hér hefur það líka verið nefnt að markaðssetja mætti hreindýraveiðar betur í tengslum við ferðaþjónustuna. Ég vildi sannarlega taka undir það. Einn hvati til að breyta þessum lögum var einmitt sá að skapa grundvöll fyrir aukinni ferðaþjónustu tengdri hreindýraveiðunum vegna þess að hreindýraráð úthlutar nú öllum veiðunum í staðinn fyrir að sveitarfélögin geri það og framselji síðan leyfin aftur til hreindýraráðs eftir ákveðnu ferli. Það skapaði töf. Í þessu nýja kerfi mun hreindýraráð úthluta öllum leyfunum þannig að hægt er að gera það miklu fyrr. Menn geta þá, fái þeir leyfi, tengt þau leyfi við ferðaþjónustu og þannig væri hægt að auka virðisauka á Austurlandi tengdan ferðaþjónustunni.

Hér hefur orðið nokkur umræða um fulltrúana í hreindýraráði. M.a. komu fram hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur vissar efasemdir um að fulltrúi Náttúrufræðistofnunar Íslands og veiðistjóri ættu að vera áheyrnarfulltrúar í hreindýraráði. Ég tel eðlilegt að þessir tveir aðilar hafi rétt til að mæta á fundina sem áheyrnarfulltrúar. Það er ekki skylda að mæta á fundina. En vegna þeirra lögbundnu hlutverka sem báðir þessir aðilar hafa tel ég eðlilegt að þeir hafi rétt til að sitja fundi hreindýraráðs.

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað og ég vona að frv. nái fram að ganga núna fyrir þinglok þar sem ég tel að það sé talsvert hagsmunamál fyrir Austfirðinga og reyndar þjóðina alla að við getum farið að nýta okkur þessar nýju reglur strax við úthlutun veiðileyfa í sumar.