Stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 17:50:49 (6242)

2000-04-07 17:50:49# 125. lþ. 95.27 fundur 530. mál: #A stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv. 98/2000, viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[17:50]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 831 sem er 530. mál þingsins, um stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Frv. þetta er samið í viðskrn. Er frumvarpið að meginefni til samhljóða frumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu.

Tvær meginástæður liggja að baki frumvarpinu. Í fyrsta lagi að stofna hlutafélag um rekstur Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum til þess að ríkisstjórninni sé kleift að selja félagið ef viðunandi kauptilboð berst í það, en stefnt hefur verið að því um nokkurn tíma að ríkið dragi sig endanlega út úr rekstri vátryggingafélaga á hinum almenna markaði. Í öðru lagi að afnema sérlög um bátaábyrgðarfélög og um leið skyldutryggingu þilfarsbáta að 100,49 rúmlestum brúttó.

Í framsöguræðu þáv. viðskrh. með frv. því sem lagt var fram á 122. löggjafarþingi var rakin saga laga um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og laganna um bátaábyrgðarfélögin. Vísa ég einnig til sömu umfjöllunar í athugasemdum með þessu frv.

Í athugasemdum er einnig að finna ítarlega umfjöllun um eignarhald á Samábyrgðinni. Í ljósi þeirrar umfjöllunar og þeirrar umræðu sem hefur orðið á opinberum vettvangi um það efni, svo og með tilvísan til þeirra tilboða sem aðilar sem standa að bátaábyrgðarfélögunum hafa gert í Samábyrgðina, tel ég ekki ástæðu til þess að rekja nánar það mál. Virðist það nú ágreiningslaust að Samábyrgð Íslands á fiskiskipum sé ríkisfyrirtæki. Hins vegar tel ég rétt að skýra frá því að fyrir liggja tvö tilboð í Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Annars vegar er um að ræða ítrekun tilboðs í eignarhlut ríkisins sem þeir Sveinn Hjörtur Hjartarson, stjórnarformaður Samábyrgðarinnar og Hjálmar Styrkársson, framkvæmdastjóri Vélbátaábyrgðarfélagsins Gróttu gerðu upp á 190 millj. kr. Hins vegar liggur fyrir tilboð frá Verði vátryggingafélagi, sem áður hét Vélbátatrygging Eyjafjarðar, upp á 200 millj. kr. Ekki hefur verið tekin afstaða til þessara tilboða. Ráðuneytið hefur hins vegar reynt að beita sér fyrir því að bátaábyrgðarfélögin kæmu sér öll saman um sameiginlegt tilboð í Samábyrgðina. Er vitað að viðræður hafa farið fram á milli aðila um það efni.

Ástæða þess að ég nefni þetta hér er að fyrir hefur legið að ríkisstjórnin kynni að vera reiðubúin til þess að selja bátaábyrgðarfélögunum og þeim sem að þeim félögum standa Samábyrgðina á verði sem er lægra en upplausnarvirði hennar.

Eins og fram kemur í frv. er viðskrh. gert að fara með eignarhlut ríkisins í Samábyrgðinni og selja hann ef ásættanlegt tilboð berst. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að gefa framangreindum aðilum kost á því í eitt ár frá samþykkt frv. að koma sér saman um eitt sameiginlegt tilboð. Verði tilboðið talið ásættanlegt má gera ráð fyrir að þeim verði seldur eignarhlutur ríkisins. Hafi sameiginlegt tilboð ekki borist innan þessara tímamarka má allt eins búast við því að Samábyrgðin verði falboðin á opnum markaði. Rétt er þó að ítreka að frv. það sem hér er lagt fram fjallar fyrst og fremst um stofnun hlutafélags um rekstur Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum en ekki um sölu þess. Hafa ber þó hugfast að það er ásetningur ríkisstjórnarinnar að ríkið dragi sig út úr vátryggingastarfsemi á samkeppnismarkaði.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.