Stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 17:54:48 (6243)

2000-04-07 17:54:48# 125. lþ. 95.27 fundur 530. mál: #A stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv. 98/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[17:54]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það vakna satt að segja nokkrar spurningar þegar maður les yfir þetta frv. og greinargerð og hlýðir á mál hæstv. viðskrh. um frv. til laga um stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Hæstv. ráðherra hefur lýst því að þær meginástæður sem liggja að baki frv. séu í fyrsta lagi að stofna hlutafélag um reksturinn og síðan sé stefnt að því að selja ef viðunandi kauptilboð berst. Síðan, eins og segir í greinargerðinni, hefur verið stefnt að því um nokkurn tíma að ríkið dragi sig endanlega út úr rekstri vátryggingafélaga á hinum almenna markaði.

Nú gæti það út af fyrir sig verið ágætis markmið að ríkið dragi sig út úr rekstri vátryggingafélaga ef það væri tryggt að vátryggingastarfsemin væri almennt á eðlilegum og heilbrigðum samkeppnismarkaði og þar ríkti ekki fákeppni og samráð, en á því finnst mér nokkuð bera varðandi tryggingafélögin.

Þetta tiltekna mál sem við ræðum hér kemur til efh.- og viðskn. og við munum fara yfir það ítarlega. En ráðherrann nefnir og ítrekar það í sinni framsögu að hér sé ekki verið að fjalla um sölu, hér sé fyrst og fremst verið að breyta forminu og stofna hlutafélag. Við höfum heyrt það áður þegar verið er að breyta rekstri ríkisfyrirtækja í hlutafélög að ekki séu áform um að selja eða ekki sé meiningin að selja, en það hefur yfirleitt liðið stuttur tími frá því að Alþingi hefur samþykkt hlutafélagavæðingu á ríkisfyrirtæki þangað til það hefur verið selt. En það kemur beinlínis fram, herra forseti, í 3. gr. frv. að viðskrh. er heimilt að ákveða heimild á sölu á eignarhlut ríkissjóðs í félaginu að hluta til eða öllu leyti og ég get ekki annað skilið þegar þetta er lesið en að ef fram fer sala og frv. verður samþykkt eins og hér er lagt upp með það, þá þurfi málið ekki að koma aftur til kasta þingsins. Þess vegna verður þingið og efh.- og viðskn. auðvitað að fjalla um málið einmitt út frá því að hér er einnig verið að heimila sölu, ekki bara hlutafélagavæðingu heldur er einnig verið að heimila sölu á þessu fyrirtæki.

Það sem vekur athygli mína er að það er nefnt í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að eigið fé þessa félags í árslok 1998 hafi verið 278 millj. kr. Ég veit ekki hvað það var um síðustu áramót en engu að síður er verið að tala um að tilboð sem hafa legið fyrir --- en eins og hæstv. ráðherra nefndi þá kom þetta fyrir 122. löggjafarþing --- eru upp á 190 millj. kr. annars vegar og einnig liggur fyrir tilboð frá öðrum aðila upp á 200 millj. kr. En við erum að tala um að eigið fé sé upp á 278 millj. kr. þannig að eina ferðina enn virðist það vera svo að það sé verið að selja hér ríkisfyrirtæki á undirverði.

Þeir sem hafa gert tilboð í þetta eru stjórnarformaður Samábyrgðar og framkvæmdastjóri Vélbátaábyrgðarfélagsins Gróttu. Þeir virðast hafa gert í þetta tilboð. Þetta var á 122. þingi og ég spyr: Liggja þessi tilboð enn fyrir? En þegar fyrir málinu var mælt á 122. löggjafarþingi lágu þessi tilboð fyrir. Ég spyr: Á að fara með þessa sölu fram hjá einkavæðingarnefndinni? Á ekki að fara fram útboð á sölunni? Það er nokkuð óvanalegt ef ekki á að gera það. Það er bara ákveðið hverjir það eru sem eiga að geta keypt þetta fyrirtæki. Það er nokkuð óvanalegt sem hér er verið að fara fram á og þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort einkavæðingarnefnd hafi fjallað um þetta mál sérstaklega og hvert sé álit hennar. Af hverju fer ekki fram útboð og hverju sætir að það eigi að gefa þessum aðilum eitt ár, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu, þ.e. þessum tveim aðilum sem vilja gera tilboð í þetta? Það er verið að reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu um að þessir aðilar geri þá eitt tilboð í þetta félag. Þetta er mjög óvanaleg aðferð, finnst mér, sem hér á að fara.

Ég vil líka spyrja hvort ekki hafi farið fram mat á þessu fyrirtæki, mat á verðmætunum í þessu fyrirtæki vegna þess að mér finnst þetta mál allt nokkuð sérstakt.

Hæstv. ráðherra nefndi að málið væri ágreiningslaust, þ.e. að fyrirtækið ætti ekki að vera áfram í ríkiseigu. En milli hverra er það ágreiningslaust?

Herra forseti. Þetta eru spurningar sem vakna við fljótan yfirlestur á þessu máli. Mér skilst að um einhvern tíma hafi verið deilur um eignarrétt í þessu fyrirtæki. Vera má að sá vandi sé leystur og væri gott að fá það alveg á hreint við þessa umræðu.

Eins og hæstv. ráðherra heyrir þá er ég nokkuð gagnrýnin á það hvernig eigi að standa að þessari sölu. Það þýðir ekki, herra forseti, að bera það á borð fyrir þingið að hér sé bara verið að stofna hlutafélag um reksturinn. Það er stefnt að sölu eins og kemur fram í 3. gr. frv. og það var auðvitað ekki hægt að skilja orð hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að stefnt væri að því að selja þetta fyrirtæki og gefa þeim aðilum sem hafa lagt fram tilboð núna í þetta fyrirtæki, eitt ár til þess að skila inn sameiginlegu tilboði. Það er því nokkuð sérkennilega að þessu staðið. Ég ætla ekki, herra forseti, að ítreka þær spurningar sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðherra en vænti þess að fá svör við þeim.