Stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 18:15:19 (6249)

2000-04-07 18:15:19# 125. lþ. 95.27 fundur 530. mál: #A stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv. 98/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[18:15]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með síðasta ræðumanni að það er mjög óeðlilega staðið að þessu sé það rétt að sá sem hefur gert tilboð í þetta fyrirtæki, upp á 190 millj., á undirverði upp á 100 millj. undir eigin fé, stjórnarformaður Samábyrgðar sé einnig formaður nefndarinnar sem samdi frv. Það er mjög óeðlilegt ef þetta er rétt. Ég bara spyr hvort það geti verið að sami aðili og semur þetta frv., formaður nefndarinnar sem ráðherra skipaði til að endurskoða þessi lög, geri síðan tilboð í þetta fyrirtæki. Þetta mál þarf rækilegrar skoðunar við í efh.- og viðskn.

Eins og ég sagði áðan þýðir ekki að bjóða þinginu upp á að það sé bara verið að hlutafélagavæða, ætlunin er auðvitað að selja. Ég spyr ráðherrann, af því að hún talar um að gefa þessum tveimur tilboðsaðilum eitt ár til að komast að einu sameiginlegu tilboði: Mun þetta mál koma aftur til kasta þingsins áður en ríkið tekur ákvarðanir um þessa sölu? Það er mjög óeðlilegt að fyrirtæki skuli ekki sett á almennan útboðsmarkað. Ég spyr: Er það í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar? Þetta er orðið svo blygðunarlaust hjá ríkisstjórninni að ráðherra hikstar ekki þegar hún segir að hér sé verið að selja ríkiseign á undirverði. Hún segir það bara blátt áfram hér að verið sé að selja ríkiseign á undirverði. Þetta er orðið algjörlega grímulaust hjá ríkisstjórninni.

Ég spyr hæstv. ráðherra um þetta. Á málið að ganga svona fyrir sig? Ég sé ekki annað en að efh.- og viðskn. þurfi töluverðan tíma til að fara ofan í þetta mál. Ég spyr: Kemur þetta til kasta þingsins aftur áður en salan fer fram? Þetta mál er náttúrlega mjög sérkennilega vaxið ef eignin fer ekki á útboðsmarkað.