Stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 18:18:55 (6251)

2000-04-07 18:18:55# 125. lþ. 95.27 fundur 530. mál: #A stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv. 98/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[18:18]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru furðuleg svör hjá hæstv. ráðherra og þó að Samfylkingunni finnist þetta lítið og sætt og sé hlynnt bátum þá er Samfylkingin á móti því að gefa ríkiseigur. Samfylkingin vill að rétt og eðlilega verði staðið að því ef á annað borð á að selja þetta fyrirtæki. Ég mótmæli ekki því að það gæti verið rétt en að því ætti að standa eins og gert hefur verið, þ.e. að þetta fari á útboðsmarkað. Hæstv. ráðherra hefur ekki svarað því hvort hér sé virkilega sami aðili að gera tilboð og var í nefnd á vegum ráðuneytisins sem fjallaði m.a. um þetta mál og hvernig það yrði fært í frumvarpsbúning. Það er auðvitað mjög alvarlegt ef svo er og verður auðvitað rækilega skoðað í nefnd.

Ráðherrann kemst ekkert hjá því að svara svo einfaldri spurningu sem ég lagði fyrir hana, um hvort þetta frv. þýddi ekki bæði hlutafélagavæðingu og sölu. Það mun ekki koma til kasta þingsins aftur þegar ákveðið verður hvernig standa eigi að þessari sölu, þ.e. hvort gefa eigi það á undirverði til tilboðsaðila eða hvort það fari á útboðsmarkað. Liggur það ekki klárt fyrir að Alþingi er endanlega að afgreiða málið frá sér með þessu frv.? Ég óska eftir svörum við því.