Sjúklingatrygging

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 16:26:06 (6268)

2000-04-10 16:26:06# 125. lþ. 96.19 fundur 535. mál: #A sjúklingatrygging# frv. 111/2000, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[16:26]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Hér fjöllum við um afar athyglisvert og mikilvægt frv. sem felur í sér mikla réttarbót fyrir einstaklinga sem telja sig hafa orðið fyrir heilsuskaða af völdum meðferðar hjá heilbrigðisstofnunum, þ.e. hjá heilbrigðisstarfsfólki. Það kemur fram í grg. með frv. að fyrirmyndin er sótt til Norðurlandanna en sambærileg lög eru í gildi í Svíþjóð frá 1975, í Finnlandi frá 1987, í Noregi frá 1988 og í Danmörku frá 1992. Réttarstaða fólks sem telur sig hafa orðið fyrir heilsuskaða, ekki síst varanlegum heilsuskaða af völdum meðferðar sem það hefur hlotið í íslensku heilbrigðiskerfi, er sú að það hefur þurft að sækja rétt sinn í gegnum dómstólana. Þar hefur fólk þurft að sýna fram á að um læknamistök eða mistök annarra heilbrigðisstarfsmanna hafi verið að ræða. Þá fyrst að sök hefur sannast á heilbrigðisstarfsmann hefur viðkomandi einstaklingur fengið bætur.

Þrátt fyrir ákvæði almannatryggingalaga, sem mig minnir að hafi komið inn í lögin árið 1989, sem gera ráð fyrir að réttur þeirra sem verða fyrir heilsutjóni sé bættur er langt frá því að sjúklingar fái raunverulegar, fullar fébætur fyrir skaða sem þeir hafa orðið fyrir. Samkvæmt þeim ákvæðum almannatryggingalaganna sem ég vísa hér til ná þau til læknamistaka eða mistaka heilbrigðisstarfsmanna sem gerast inni á heilbrigðisstofnunum á vegum hins opinbera. Hins vegar hafa þau ekki náð til læknamistaka eða mistaka annarra heilbrigðisstarfsmanna sem eru sjálfstætt starfandi. Í því frv. sem við höfum nú fyrir framan okkur er rétturinn aukinn verulega þannig að sjúklingatryggingin nær yfir alla heilbrigðisþjónustu, hvort sem hún er rekin af hinu opinbera eða af öðrum aðilum. Það er verulega til bóta, ekki síst í ljósi þess að verið er að færa heilbrigðisþjónustu í auknum mæli út fyrir veggi stofnana sem reknar eru af ríkinu.

Einnig er vert að benda á að nú hin síðari ár hafa komið auknar kvartanir til landlæknis, kvartanir og kærur um heilbrigðiþjónustuna. Ég tel að það þurfi ekki endilega að draga þá ályktun að mistökum hafi fjölgað þó reyndar þurfi að skoða það. Ég tel frekar að fólk hafi aukna vitund um réttarstöðu sína og rétt sinn auk þess sem almenn þekking fólks á heilbrigðismálum hefur aukist verulega. Aðgangur fólks að upplýsingum um heilbrigðismál hefur aukist verulega þannig að það getur betur metið í dag en áður hvort um mistök hafi verið að ræða eða ekki. Einnig held ég að þarna komi inn minnkandi virðing fyrir valdi heilbrigðisstarfsmanna sem er í raun af hinu góða. Fólk á auðvitað sjálft að hlusta á eigin líkama en ekki aðeins á sérfræðinga sem eru til þess menntaðir.

Kerfið sem verið hefur við lýði hefur verið gagnrýnt verulega. Aðferðin sem notuð hefur verið hingað til, þ.e. að sækja bótarétt sinn fyrir dómstólum og sanna sök á heilbrigðisstarfsmann, hefur verið verulega kostnaðarsöm fyrir alla aðila. Það hefur líka skapað ákveðna erfiðleika. Þurft hefur að einangra ábyrgðaraðila og finna sökudólg. Það hefur verið mjög sársaukafullt fyrir þann sem sóttur er til saka og hefur skaðað hann bæði persónulega og faglega.

[16:30]

Þetta er ekki síst erfitt þar sem við vitum að flestir heilbrigðisstarfsmenn leggja sig verulega fram við að veita góða þjónustu. En við vitum líka að mistök geta alltaf orðið og að tveir einstaklingar með sama sjúkdóm sem fara í gegnum sömu meðferð svara meðferðinni ekki alltaf á sama máta. Þannig getur ýmislegt ófyrirsjáanlegt gerst.

Það hefur líka verið gagnrýnt að einstaklingur hafi einungis fengið fjárhagslegar bætur vegna tjóns hafi sök verið sönnuð. Þó hann hafi sannarlega orðið fyrir heilsutjóni þá hefur hann ekki fengið fjárhagslegar bætur eftir því sem ég kemst næst hafi ekki verið hægt að sanna sök heilbrigðisstarfsmanns. Ferillinn sem fólk hefur þurft að fara í gegnum hefur skapað ákveðna tortryggni á milli heilbrigðisstarfsmanna og skjólstæðinga þeirra. Það hefur verið túlkað sem svo að kerfið sé að verja sig og ásakanir um samtryggingu innan heilbrigðisstétta hafa komið upp á yfirborðið. T.d hafa ásakanir um samtryggingu lækna oft komið fram því samkvæmt eðli málsins þarf læknir að leggja mat á störf kollega síns þegar málsatvik eru skoðuð. Við þekkjum það mjög vel að sjúklingar sem telja sig hafa orðið fyrir heilsuskaða af völdum mistaka hafa stofnað öflug samtök sem styðja við þá sem sækja vilja rétt sinn gagnvart heilbrigðiskerfinu. Þau hafa talað máli sjúklinga gagnvart yfirvöldum í þessu efni til að sækja aukinn réttindi.

Kostir hins nýja frv. felast í mörgu. Fyrst og fremst er fókusinn algjörlega breyttur, ef ég má orða það svo, varðandi rétt einstaklinga. Nú er sjónum beint að einstaklingnum og rétti hans til bóta vegna heilsutaps. Þar er skilyrðið fyrir greiðsluskyldu að tjón hafi orðið í sambandi við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð en ekki hvort tiltekinn heilbrigðisstarfsmaður beri sök á heilsutjóni viðkomandi einstaklings. Í þessu breytta sjónarhorni felst mikil réttarbót fyrir einstaklingana.

Málsmeðferðin er einnig einfölduð verulega. Aðilar málsins fá tækifæri til að skoða málsatvik frá öllum hliðum án þess að þungi hugsanlegrar sektar og persónulegrar bótaábyrgðar einstaks heilbrigðisstarfsmanns vofi yfir. Þessi þáttur er styrktur í 8. gr. frv. þar sem allur vafi er tekinn af því að sjúklingatrygging getur ekki endurkrafið heilbrigðisstarfsmann vegna hugsanlegs tjóns af hans völdum. Þrátt fyrir að margir mundu halda því gagnstæða fram þá tel ég að þetta ákvæði styrki vitund og ábyrgð heilbrigðisstarfsmanna í störfum sínum. Lagt verður kapp á að upplýsa mál í stað þess að farið sé í varnarstöðu.

Gagna verður aflað á viðkomandi heilbrigðisstofnun. Það verður eðlilegur þáttur í starfseminni án þess að skuggi hugsanlegra persónulegra bótaábyrgða heilbrigðistarfsmanna vofi yfir. Fram færi ítarleg og hlutlæg rannsókn og gögn yrðu lögð til grundvallar mati á hvort einstaklingurinn fullnægi skilyrðum laganna um að fá greidda sjúklingatryggingu. Gögnin ásamt mati á skaða viðkomandi yrðu lögð, annars vegar fyrir Tryggingastofnun ríkisins, gagnvart þeim heilbrigðisstofnunum ríkisins sem ekki kaupa sér sérstaka vátryggingu, eða fyrir viðkomandi vátryggingafélag, t.d. gagnvart sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum sem kaupa sér sjúklingatryggingu.

Ljóst er að með þessum nýju lögum, þegar þau verða að veruleika, munu fleiri mál koma upp á yfirborðið. Þau munu leiða af auknum rétti. Fólk verður meðvitaðra um réttarstöðu, ekki þarf að sýna fram á sök heilbrigðisstarfsmanns og málsmeðferð verður einfaldari. Þetta mun leiða til aukins aðhalds á heilbrigðisstofnunum, virkari gæðastýringar og betri heilbrigðisþjónustu.

Til viðbótar má nefna að það að þurfa að sækja rétt sinn fyrir dómstólum hefur eitt og sér þrúgandi áhrif á einstaklinginn og getur staðið í vegi fyrir því að hann komist til heilsu á ný, þegar hann er upptekinn af því að verja stöðu sína og sækja rétt sinn fyrir dómstólunum. Þannig að þessi nýja leið sem frv. boðar, þegar það verður að lögum, hefur í raun forvarnaáhrif.

Nokkur atriði, herra forseti, þarfnast þó skoðunar við. Þegar ég las þetta merkilega frv. þá velti ég fyrir mér nokkrum hlutum sem mig langar að bera undir hæstv. ráðherra.

Samkvæmt 2. gr. frv. skapast réttur til sjúklingatryggingar ef viðkomandi einstaklingur hefur orðið fyrir tjóni vegna mistaka, vegna bilunar eða galla í rannsóknar- eða lækningatækjum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, þegar komast hefði mátt hjá tjóni ef annarri meðferð eða tækni hefði verið beitt, eða þegar fylgikvillar eru meiri en við hefði mátt búast, eins og segir í 1.--4. tölul. 2. gr. frv.

Því spyr ég heilbrrh. um hvernig þessi lög mundu snúa að einstaklingum á biðlista. Þeir hafa fengið sjúkdómsgreiningu en verða fyrir heilsutjóni vegna aðgerðar eða meðferðar sem viðkomandi hefur ekki fengið, vegna þess að ekki hefur verið hægt að koma honum að. Með öðrum orðum: Hver er réttarstaða einstaklinga sem hafa fengið sjúkdómsgreiningu en verða fyrir frekara heilsutjóni þar sem þeir fá ekki viðeigandi meðferð sem metin hefur verið nauðsynleg?

Í þessu sambandi vil ég vísa í athugasemdir við 2. gr. frv. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Hafi hins vegar sjúkdómur dregist á langinn vegna þess að sjúklingur fékk ekki viðeigandi meðferð, t.d. af því að sjúkdómsgreining var röng, getur sjúklingur átt rétt á bótum, skv. 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 2. gr.``

Ég er að spyrja um einstakling sem hefur sjúkdóm sem dregist hefur á langinn vegna þess að hann fékk ekki viðeigandi meðferð, ekki vegna þess að sjúkdómsgreining var röng heldur vegna þess að hann fékk ekki meðferð sem hann nauðsynlega þurfti á að halda. Ég held að nauðsynlegt sé að skoða þetta. Ég hef sjálf ekki svör við því hver réttur hans á að vera en ég held að nauðsynlegt sé að við veltum því fyrir okkur.

Síðan langaði mig líka að fá skýringu hæstv. heilbrrh. á síðustu málsgrein 2. gr. frv., en þar segir:

,,Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um það fyrir hvaða tjón greiða skuli bætur skv. 1. mgr. Ráðherra getur einnig sett nánari reglur um að tilgreindir flokkar tjónstilvika skv. 3. tölul. 1. mgr. skuli undanþegnir lögunum.``

Gott væri að fá að vita hvaða tilvik hér er verið að hugsa um.

Þriðja atriðið sem mig langar líka að fá aðeins betri skýringar á er varðandi meðferð bótakrafna vegna sjúklingatryggingar. Hún er mismunandi eftir því hvort bótaskyldur aðili hefur keypt vátryggingu eða ber bótaábyrgðina í eigin áhættu. Annars vegar er bótakröfunni beint gegn Tryggingastofnun ríkisins vegna bótaskylds aðila sem undanþeginn er vátryggingarskyldu, t.d. sjúkrahúss á vegum ríkisins. Hins vegar er bótakröfu beint gagnvart vátryggingafélagi, t.d. vegna sjálfstætt starfandi aðila. Mig langaði að heyra hugleiðingar hæstv. ráðherra um hvort og þá hvernig möguleiki sé á að tryggja jafnræði í málsmeðferð þessara tveggja ólíku aðila, annars vegar Tryggingastofnunar ríkisins sem hefur ákveðnar reglur og hins vegar vátryggingafélaga. Mig langar að heyra svör ráðherrans og jafnframt tel ég ástæðu til að hæstv. heilbr.- og trn. skoði þetta sérstaklega.

Fjórða atriðið sem mig langaði að fá skýringar á er varðandi það sem segir í lið 5.3 í athugasemdum. Þar segir að þetta frv. og þau lög sem af því leiða tryggi ekki gegn mistökum vegna verkunar lyfja nema þá --- ég skil það þannig --- að mistök hafi orðið við lyfjagjöf, að það falli undir lögin. Hins vegar er talað um að þessi lög bæti ekki tjón af völdum eiginleika lyfja. Það kemur fram hér í grg. að ýmis rök mæli með því að samhliða sjúklingatryggingu verði stofnað til lyfjatjónstrygginga hér á landi og þá með Norðurlöndin að fyrirmynd. Mig langaði til að spyrja hvort áform eru uppi um að setja slíka lyfjatjónstryggingu á laggirnar.

Þetta voru þau atriði sem ég vildi fjalla um varðandi þetta ágæta frv. sem liggur hér fyrir. Ég verð að segja að þegar ég renndi yfir það þá vakti frv. mikla ánægju mína. Ég hafði sjálf ekki hugleitt sérstaklega þörf fyrir þessa sjúklingatryggingu og hafði ekki heldur kynnt mér það sérstaklega erlendis. Ég vil þó að lokum segja og hef reyndar sagt áður, að þetta er eitt dæmi um hvernig heilbrrh. hefur greint þörfina og svarað henni afar vel, þörf sem er mjög rík í þjóðfélaginu þó að hún hafi farið fram hjá mér eins og ég lýsti áðan.