Sjúklingatrygging

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 16:48:08 (6270)

2000-04-10 16:48:08# 125. lþ. 96.19 fundur 535. mál: #A sjúklingatrygging# frv. 111/2000, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[16:48]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur orðið um þetta mikilvæga mál. Það er flókið eins og fram kemur í máli hv. þm. sem hér hafa talað. Þetta er margslungið, flókið og erfitt að sjá fyrir öllu þegar slíkt mál er til afgreiðslu og umfjöllunar. Þess vegna hefur tekið langan tíma að koma þessu frv. saman. Við höfum leitað til reyndra aðila í heilbrigðissþjónustunni, til lögfræðinga og við höfum leitað erlendis. Þannig er ljóst að víða hefur verið leitað fanga.

Til mín var beint nokkurum spurningum sem ég vona að ég geti svarað. T.d. spyr hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir: Hvað með lyf? Eru sjúklingar tryggðir gegn rangri lyfjagjöf? Svarið við því er já. Samkvæmt frv. eru sjúklingar tryggðir gegn rangri lyfjagjöf. Ef hjúkrunarfræðingur eða læknir gefur rangt lyf þá er um tryggingu að ræða. Sé aftur á móti galli í lyfinu sjálfu þá gilda um það önnur lög, þá kemur til svokölluð skaðsemisábyrgð þannig að sjúklingurinn er tryggður í báðum tilvikum. Ríkið greiðir skaðabætur vegna rangrar lyfjagjafar en hins vegar innflytjendur ef í ljós kemur að lyf eru gölluð.

Hv. þm. Ástu Möller spurði: Hvað um sjúklinga sem eru óhóflega lengi á biðlista? Eiga þeir einhvern rétt samkvæmt þessu frv. sem hér liggur fyrir? Þeir eiga ekki rétt samkvæmt frv. því sem hér liggur fyrir en ef um óforsvaranlega langan tíma er að ræða þá gildir sú regla í dag að slíkir sjúklingar geti leitað réttar síns.

Það er líka spurt um undantekningartilvikin sem greint er frá í 2. gr. Þar er sérstaklega litið til þess hve mikið er um nýja tækni í dag sem við sjáum kannski ekki nákvæmlega fyrir á þessari stundu. Til að geta tekið á móti nýrri tækni er þessi síðasta málsgrein í 2. gr. eins og þar stendur.

Varðandi jafnræðisregluna og hvort ekki sé hætta á að ekki verði fullt jafnræði milli þess sem ríkið greiðir og vátryggingafélögin þá höfum við mikið fjallað um það atriði. Það þykir rétt að ríkið hafi þessa sjálfsábyrgð fyrir starfsmenn sína. Það þykir einnig rétt að þeir sem eru sjálfstætt starfandi kaupi sína ábyrgð og þá verðum við að treysta á að ef ójafnvægi verði muni dómstólar fjalla um það.

Varðandi spurningu sem ég fékk um hámarksupphæðina, 5 millj. kr., þá eru sjúklingar í engu tilvika að missa af neinu sem þeir hafa í dag. Það er mjög mikið atriði og fremur er þetta til bóta fyrir þann sem verður fyrir skaða í heilbrigðiskerfinu.