Samvinnufélög

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 17:19:30 (6276)

2000-04-10 17:19:30# 125. lþ. 96.24 fundur 532. mál: #A samvinnufélög# (innlánsdeildir) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[17:19]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Í því frv. sem við ræðum um innlánsdeildir samvinnufélaganna og það frv. sem rætt var áðan var það hárrétt sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gat um. Verið er að bregðast við ákveðinni breytingu sem hefur orðið á umhverfi þessara fyrirtækja. Annars vegar er það umhverfi samvinnufélaganna og það eru þá vandkvæði þeirra að bæði er að hluta til litið á þau sem félagslegar stofnanir og hins vegar eru erfiðleikar hjá þeim að afla sér nýs áhættufjár.

Svo ræðum við um innlánsdeildina sem er sömuleiðis gömul leif frá þeim tíma er menn töldu skynsamlegt að blanda saman verslun og geymslu peninga sem er orðið mjög gamaldags og úrelt nú til dags.

Það frv. sem við sjáum hér verðum við að skoða í ljósi þeirra öru breytinga sem eiga sér stað á fjármálamarkaðinum þessa dagana og þær breytingar sem margir, og þar á meðal ég, telja sig sjá í vændum innan mjög skamms tíma og þá kannski fimm ára eða eitthvað slíks. Við sjáum nú þegar þessar breytingar gerast með því að mikill vilji er hjá stórum aðilum á fjármagnsmarkaði að sameinast til að þeir geti staðist þær miklu kröfur og samkeppni sem kemur innan ekki langs tíma og er þegar komin. Ég nefni í því sambandi sérstaklega netbanka sem munu koma, verða stofnaðir og hafa þegar verið stofnaðir. Enda þótt þeir hafi ekki verið markaðssettir neitt sérstaklega mikið er ljóst að netbankar munu hafa marga kosti umfram þá hefðbundnu banka sem starfa. Útibú verða óþörf, þau munu breytast í að verða ráðgjafarstofur um fjármál einstaklinga. Breytingarnar verða mjög örar og ég geri ráð fyrir að það verði hraðar en margur hyggur þannig að innan fimm ára munum við sjá gerbreytt landslag á bankamarkaðnum. Þá verður aðalvandi bankanna hvað gera eigi við allt starfsfólkið sem hefur annars konar færni en þá færni sem krafist verður af því starfsfólki sem á að veita ráðgjöf um hvort eigi að fjárfesta í Japan eða á Íslandi og hvernig eigi að taka hagstæð lán.

Angi af þessu er það frv. sem við ræðum hér sem eru innlánsdeildir kaupfélaganna, löngu orðnar úreltar að mínu mati. Mér finnst að sú nefnd sem fjallaði um það hafi í rauninni ekki tekið á málinu með nógu mikilli festu og ekki í ljósi þeirra breytinga sem við stöndum frammi fyrir. Hér er verið að fara á hraða snigilsins. Teknar eru hálfar ákvarðanir, ekki er tekið ákvörðun um að leggja þessar deildir niður eða hjálpa til við að leggja þær niður, heldur á að sníða þeim þrengri stakk þannig að þær neyðist til að leggjast niður með tíð og tíma. Ég hygg að sá vandi sem steðjar að stóru bönkunum steðji ekki síður að minni sparisjóðum og alveg sérstaklega þessum innlánsdeildum og hér verði menn að vinna miklu hraðar, nákvæmlega eins og hæstv. viðskrh. verður að vinna miklu hraðar varðandi eignarhaldið á ríkisbönkunum vegna þess að þeir kunna að verða verðlausir ef menn bíða of lengi.

Það sem einu sinni var talið mikið verðmæti í bönkum, þ.e. útibúanetið, verður eins og myllusteinn um hálsinn á bönkunum vegna þess að það kostar að losa sig við steinsteypuna. Það kostar að losa sig við eða endurmennta starfsfólk sem er mjög dýrt. Það eru mörg félagsleg vandamál sem þarf að glíma við og ég vil biðja hv. þm. að gæta rétt aðeins að því hvað sú breyting þýðir sem við stöndum frammi fyrir í félagslegum vandamálum. Öll þau lán meira og minna, bæði félagsleg og pólitísk, sem menn hafa verið að veita á undangengnum áratugum, sem verða ekki öll greidd, kosta heilmikið. Það eru sem sagt lík í lestinni.

Nýr banki sem hefur starfsemi sína t.d. á vegum erlends fjarskiptafyrirtækis, því að það eru væntanlega þau sem verða í netbankastarfsemi hér á landi sem annars staðar, og hefur ekkert af þessum líkum í lestinni getur boðið hærri lán til sparifjáreigenda, veitt betri ráðgjöf til sparifjáreigenda og hann getur veitt ódýrari og öruggari lán til skuldara með betri ráðgjöf og betri upplýsingum. Þetta er sú staða sem íslenskt bankakerfi stendur frammi fyrir. Þess vegna skil ég ekki að menn skuli leyfa sér að fara með hraða snigilsins í þessu máli. Við erum að ræða um tíu innlánsdeildir, við erum að ræða um sparifé fólks og mjög mikilvægt að fundin sé skjót lausn á þessum vanda.

Þessi mál koma væntanlega til umfjöllunar í hv. efh.- og viðskn. Þar á ég sæti og þar mun ég reyna að knýja á um að menn finni einhverjar fljótari lausnir en hraða snigilsins sem þetta frv. gerir ráð fyrir.