Samvinnufélög

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 17:25:41 (6277)

2000-04-10 17:25:41# 125. lþ. 96.24 fundur 532. mál: #A samvinnufélög# (innlánsdeildir) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[17:25]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hefur orðið um þessi þingmál eða sérstaklega það síðara. Ég hef mikla reynslu af samvinnurekstri, hef setið í stjórnum samvinnufélaga og er ákaflega hlýtt til samvinnufélaga almennt. Stefna flokks míns byggir mjög á samvinnuhugsjóninni en engu að síður tel ég nauðsynlegt að taka á málum sem varða samvinnurekstur nú með tilliti til breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu. Ég mæli þess vegna fyrir þessum málum mjög hlutlaust og tel að það sé mikilvægt að þau séu skoðuð vel í nefndinni og í sjálfu sér legg enga sérstaka áherslu á að þau verði afgreidd á þessu vori. En það verður bara að koma í ljós eftir því hvernig tekst til um vinnuna.

Það sem kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er í sjálfu sér alveg réttur skilningur hjá henni að með frv. um innlánsdeildir er kannski fyrst og fremst verið að skapa möguleika til að félög geti losað sig frá innlánsdeildunum ef þau telja það vera rétt, hvort sem það er að vinna á hraða snigilsins eða ekki, um það má sjálfsagt deila. Ég held hins vegar að í þessu tilfelli sé ekki nauðsynlegt í að grípa til einhverra skyndiráðstafana. Ég held að þetta muni þróast ákaflega eðlilega á næstu árum og það fari m.a. eftir hverju og einu félagi hversu hratt það vinnur að þessum málum. Ég held að við séum ekki með neinn stórkostlegan vanda hvað varðar þessar innlándeildir, þannig lagað séð að það á að vera tryggt að innstæðueigendur fái lausn mála sinna ef illa fer um rekstur félaganna. Þess vegna sé það ekki til bóta að setja mjög ströng ákvæði í lög um það hvernig málum skuli háttað. En ég tel eðlilegt að taka á þessu máli eins og gert er í frv. og legg til að ekki verði gerðar mjög róttækar breytingar í nefndinni hvað það varðar að þetta skuli allt saman gerast mjög fljótt þó ég skilji í sjálfu sér ábendingar hv. þm. Péturs Blöndals að vera þessarar skoðunar. En miðað við þá þekkingu sem ég þykist hafa af rekstrinum og samvinnufélögunum í landinu held ég að þetta vinnist betur með því að ákvæði laganna eða frv., ef að lögum verður, sé eins og kveðið er á um.