Aukatekjur ríkissjóðs

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 17:57:23 (6291)

2000-04-10 17:57:23# 125. lþ. 96.34 fundur 258. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (gjaldtökuheimildir o.fl.) frv. 55/2000, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[17:57]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. og nál. vegna frv. til laga um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og sent það til umsagnar og í nál. er getið um þá aðila. Nefndin gerir tillögur til breytinga á frv. í tveimur liðum eins og rakið er á þskj. 962. Þær eru ekki efnislegar heldur fyrst og fremst fluttar til að bregðast við því að skilgreiningum hefur verið breytt í öðrum lögum.

Þá vill nefndin taka fram að hún telur að ekki hafi verið mörkuð nægilega skýr heildarstefna hjá hinu opinbera varðandi skil þjónustugjalda og skattheimtu. Nefndin beinir því til fjmrh. að hann setji í gang nefndarstarf sem hafi að markmiði að marka ríkinu skýra stefnu í þessum málum. Þetta hefur oft verið rætt hér á hinu háa Alþingi en hins vegar hefur aldrei verið gerð nægilega skýr stefnumörkun um hvað ríkið vill með þessari gjaldtöku. Ekki er ljóst hvort gjaldtakan er skattheimta og þá á hvaða forsendum eða hvort gjaldtakan er til þess að ná inn tekjum fyrir veitta þjónustu. Nefndin telur að mjög æskilegt væri að farið yrði yfir þessi mál og niðurstaða af slíku starfi væri þá frv. sem byggði á heildarstefnu í þessum málum. Nefndin væri ánægð ef slíkt frv. gæti komið fram á næsta þingi.

Öll nefndin stendur að þessu nál. og vonast til að málið fái brautargengi með þeim brtt. sem nefndin leggur til.