Vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 18:08:40 (6296)

2000-04-10 18:08:40# 125. lþ. 96.39 fundur 385. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (metangas- eða rafmagnsbílar) frv. 38/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[18:08]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mjög þarft mál sem felur í sér heimild til að lækka tímabundið vörugjald af bifreiðum sem nýta að verulegu leyti metangas eða rafmagn sem orkugjafa.

Upplýst hefur verið í nefndinni að áætla má að að þeir bílar séu um 200--300 þús. kr. dýrari en hinir sem ekki nýta metangas eða rafmagn og um tiltölulega fáa bíla sé að ræða en áætlað er að þeir séu, þó ekki sé hægt að festa það alveg niður, eitthvað innan við 100 bílar á því tímabili sem hér er ætlað að þessi heimild sé í gildi.

Ég held að þó að hér sé í rauninni verið að gera þá bíla sem nýta metangas eða rafmagn hlutlausa gagnvart skattheimtu ríkisins á við aðra, þá vanti í þetta frv. allan hvata til að örva að slíkir bílar séu teknir í notkun og það þurfi að vera tímabundinn meiri afsláttur af vörugjaldinu en hér er lagt til og til lengri tíma. Út á það gengur fyrirvari minn og hv. þm. Ögmundar Jónassonar og er það í samræmi við umsagnir sem hafa komið fram m.a. frá Hollustuvernd ríkisins sem ég ætla að fá að vitna í, með leyfi forseta, en þar segir:

,,Hollustuvernd ríkisins fagnar framkomnu frumvarpi til breytingar á lögum um vörugjald á bifreiðum. Það er mjög mikilvægt að vörugjald af bifreiðum sem menga minna og draga úr gróðurhúsaáhrifum sé lækkað til að tryggja að innflutningur slíkra bifreiða aukist á kostnað bifreiða sem eingöngu eru búnar hefðbundnum vélum sem nota eingöngu bensín eða dísilolíu sem eldsneyti. Til þess að slíkt markmið náist þurfa bifreiðar sem búnar eru raf- eða gasknúnum vélum til viðbótar við bensín- eða dísilvél að vera ódýrari en hefðbundnar bifreiðar, og þá enn frekar ef vélarnar uppfylla ströngustu kröfur sem búið er að setja inn í lagaramma í Evrópu. Þetta á sérstaklega við um ódýrari bifreiðar. Því leggur Hollustuvernd ríkisins til að afslátturinn verði tvöfaldur miðað við það sem lagt er til í drögunum.``

Síðan er lagt er til að þetta ákvæði gildi til 31.12. 2005.

Herra forseti. Þeir leggja jafnframt til að ef bensín- eða dísilvélarnar uppfylli jafnframt þær kröfur sem gerðar verða eftir 2005, þá skuli heimilt að lækka vörugjaldið um 120 þús. kr. til viðbótar. En tvær af þessum þremur tillögum sem hér eru lagðar til tökum við hv. þm. Ögmundur Jónasson upp, þ.e. að tvöfalda þann afslátt, sem frv. gerir ráð fyrir að sé 120 þús., og í staðinn fyrir að það verði til 2003 verði það til 2005 sem slíkt sé er heimilt. Ég held að nauðsynlegt sé að fara þessa leið til að framkalla þann hvata sem nauðsynlegur er til að örva innflutning og notkun á slíkum bifreiðum.

Ég vil nefna að aðrir umsagnaraðilar lögðu til enn hærri fjárhæð og lögðu til að um yrði að ræða 500--600 þús. kr. hækkun á afslætti, eða úr 120 þús. í 500--600 þús. sem afslátturinn yrði af þeim bílum sem nýta metangas eða rafmagn. Við förum hér því millileið í þessu og tökum upp tillögur Hollustuverndar ríkisins.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta en verði tillaga okkar samþykkt mun það þýða litla eða óverulega aukningu í útgjöldum ríkisins miðað við þann tilgang og hvata sem felst í þessari tillögu og varla yrði um að ræða fjárhæðir sem nokkru nema eða sennilega um 3--5 millj. kr.