Fjáröflun til vegagerðar

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 18:49:24 (6303)

2000-04-10 18:49:24# 125. lþ. 96.32 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[18:49]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Hér kemur hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., aftur og heldur því fram að engar kerfisbreytingar hafi verið forsenda fyrir þeim stórkostlegu hækkunum sem hafa orðið á vöruflutningum út á landsbyggðina. Ég held að ef hv. þm. mundi leggja hausinn í bleyti og hlusta á rök þeirra aðila sem kaupa þessa þjónustu úti á landi og fá að sjá þá reikninga sem ég hef hér verið að vitna til og tala um, þá sæi hann að þessar hækkanir hafa átt sér stað og eru stórkostlegar.

Bara rétt hér í lokin, herra forseti. Í bréfi sem Landvari hefur skrifað okkur þingmönnum segir, með leyfi forseta:

,,Til skemmri og lengri tíma litið mun þessi aukna skattheimta á landsbyggðarflutninga koma fram í stórhækkuðum flutningsgjöldum sem mun enn frekar skerða framleiðsluskilyrði fyrirtækja og lífsskilyrði fólks sem þar býr.``

Ég held að þetta sé grundvallaratriðið og ég skil reyndar ekki að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, jafngreindur maður og hann nú er, skuli ekki vera búinn að fá að sjá það frá þessum aðilum úti á landi að þessar hækkanir hafa átt sér stað alveg greinilega og um það þarf í raun ekkert að deila vegna þess að reikningar fyrirtækjanna sýna þetta. Og fyrirtækin kenna m.a. þessum breytingum á þungaskatti um.

Mig langar rétt í lokin að spyrja hv. þm. hvort hann væri ekki hlynntur því að nota kerfið sem notað er varðandi endurgreiðslu á þungaskatti fyrir strætisvagnarekstur á Íslandi, þ.e. hvort ekki væri hugsanlega hægt að nota það til þess að endurgreiða hluta af þungaskattinum fyrir vöruflutninga úti á landsbyggðinni og taka þar með þátt í að lækka vöruverð á landsbyggðinni og aðföng til fyrirtækja sem þar starfa.