Atvinnuréttindi útlendinga

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 19:06:42 (6306)

2000-04-10 19:06:42# 125. lþ. 96.35 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, Frsm. ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[19:06]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var heldur ekki meining okkar sem erum í félmn., auk hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að við höfum leyst til eilífðar þann vanda sem er við að fást. Hins vegar finnst mér nokkuð langt seilst hjá þingmanninum að halda því fram að þetta hafi engin áhrif. Það hefur í fyrsta lagi þau áhrif að þeim stúlkum sem þarna koma við sögu eru tryggð ákveðin réttindi. Að mínu áliti er það það merkasta sem hér kemur fram því það er ekki vansalaust sem við heyrðum, m.a. í félmn., að þarna væru hreint og beint brotin mannréttindi á þeim stúlkum sem koma fram á þessum stöðum. Hins vegar skiptir auðvitað máli varðandi frv. samgrh. að borgaryfirvöld og sveitarfélög geti haft einhvern umsagnarrétt um það hvar slíkir staðir þar sem þessi starfsemi fer fram, slík dansstarfsemi eða hvað á að kalla það, erótískir veitingastaðir eins og við segjum í nál., eru staðsettir í skipulaginu. Það skiptir mjög miklu máli ef menn ætla að reyna að sporna eitthvað við þessari starfsemi.

Varðandi skilgreiningu á því að félmrh. hafi heimild til að skilgreina hverjir eru listamenn er það eingöngu í skilningi þessara laga um atvinnuréttindi útlendinga.