Atvinnuréttindi útlendinga

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 19:11:03 (6308)

2000-04-10 19:11:03# 125. lþ. 96.35 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, Frsm. ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[19:11]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það hafi ekki verið meiningin með þessu frv. að banna fólki að koma fram nakið. Það er annarra laga að fást við það. Hér er verið að reyna að hafa einhverja stjórn á því hverjir koma þarna að og að lögreglan geti haft eftirlit með starfseminni. Það er mjög mikilvægur þáttur í þessu og kom einmitt fram í félmn. hjá þeim aðilum, bæði frá Útlendingaeftirlitinu sem komu á fund nefndarinnar og eins frá Karli Steinari Valssyni, frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík, að þeir töldu að það skipti gífurlega miklu máli að hafa heimildir til að hafa eftirlit inni á þessum veitingastöðum.

Það er auðvitað svo að starfsemi veitinga- og gististaða fer eftir þeim lögum sem fjalla um þá og ýmis skilyrði eru fyrir því hvað menn þurfa að uppfylla til að reka veitinga- og gististaði sem kemur fram í þeim lögum. Það sem menn eru að reyna að fást við með því að flokka veitingastaðina niður er að skilgreina næturklúbba. Þegar sú flokkun liggur fyrir er það mikilvægt atriði sem sveitarstjórnirnar geta þá gripið til, að kveða á um það í skipulagstillögum hvar slíkir staðir mega vera.