Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 13:57:12 (6321)

2000-04-11 13:57:12# 125. lþ. 97.15 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Við erum komin að 3. umr. um frv. til laga um breytingu á lögum um Landsvirkjun. Eins og áður hefur komið fram í umræðu um þetta frv., er það ekki stórt að vöxtum, um það bil hálf lína, fimm orð eða svo.

Þetta mál, sem varðar Landsvirkjun, var tekið fyrir í hv. iðnn. á þessum morgni. Það var beiðni fulltrúa Samfylkingarinnar í iðnn. að við fengjum fulltrúa frá iðnrn. og dómsmrn á fund iðnn.

Ég vil rifja það upp, virðulegi forseti, að málið snýst um tvennt, annars vegar stofnun félags, 100% í eigu Landsvirkjunar um ljósleiðarann, eða dreifikerfið sem Landsvirkjun á og liggur um miðhálendið, og heimild Landsvirkjunar til að eiga aðild að fjarskiptafyrirtækjum, lesist jafnframt farsímafyrirtækjum. Frumvarpsgreinin er þannig:

,,Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætist: svo og aðild að fjarskiptafyrirtækjum.``

Herra forseti. Ástæða þess að iðnn. tók þetta mál aftur fyrir í morgun var gagnrýni sem hefur komið fram bæði á málsmeðferð og jafnframt gagnrýni á að lagagreinin í frv. sé ekki afdráttarlaus, að hægt sé að setja spurningarmerki við hvort lagagreinin eigi við félag 100% í eigu Landsvirkjunar.

Hin gagnrýnisröddin hefur verið sú að greinin sé of opin hvað varðar aðild að fjarskiptafyrirtækjum almennt.

Skemmst er frá því að segja að fram kom í máli fulltrúa iðnrn. að víst væri lagagreinin mjög opin heimild, að það væri mat ráðuneytisins að greinin ætti við hvort tveggja, 100% eignarfélag Landsvirkjunar og aðild að fjarskiptafyrirtækjum. Fram kom hjá fulltrúa iðnrn. að Landsvirkjun sé sameignarfélag sem ákveði sjálft hvernig það vilji hafa hlutina og úr því að þessi lagagrein, svo orðuð, fullnægi áformum þeirra þá sé þessi lagagrein fullnægjandi. Það kom líka fram að ef til kæmi að Landsvirkjun kysi að selja ljósleiðara sinn, dreifikerfið, kæmi ákvörðun um slíkt ekki til eigandans, sem eigandi Landsvirkjunar að hálfu leyti, þ.e. til löggjafarþingsins, né heldur mundi það koma fyrir Alþingi ef félag yrði stofnað 100% í eigu Landsvirkjunar um ljósleiðarann og til kæmi að selja það síðar. Það er því alveg ljóst að ákvarðanir um þessa mikilvægu þætti, hvort þeir verða áfram í eigu þess fyrirtækis sem er að hálfu í eigu þjóðarinnar, eða að það yrði selt á markaði, koma ekki fyrir löggjafarþingið.

[14:00]

Þess vegna er orðalagið í greininni fullnægjandi. Þess vegna þarf Alþingi greinilega ekki að hafa skoðun á því hvernig frv. skuli orðað. Það er umhugsunarvert hver staða Landsvirkjunar er í dag gagnvart löggjafanum. Segja má að staða Landsvirkjunar gagnvart löggjafanum sé hvorki né.

Eins og fyrr segir fékk nefndin fulltrúa dómsmrn. á sinn fund og dómsmrn. kaus að það væri fulltrúi ríkislögreglustjóra sem mætti á fund nefndarinnar. Í máli hans kom fram, og er ástæða til að rifja það upp, að erlendis er einungis eitt kerfi sem fellur undir svokallaða skýringu á Public Safe, eitt Public Safe-kerfi, ekki tvö, ekki fleiri. Í nágrannalöndum okkar er það lögregla, slökkvilið, sjúkralið og her sem er þjónustað af þessu Public Safe-kerfi. Hjá okkur verður það lögreglan, slökkviliðið, sjúkralið, almannavarnir, og e.t.v. flugumferðarstjórn, vegagerð og björgunarsveitir og jafnvel heilbrigðiskerfið seinna. Þeir munu falla undir það sem var boðið út í fyrra af hálfu Ríkiskaupa og heitir neyðar- og öryggisband TETRA-kerfisins.

Í máli fulltrúa ríkislögreglustjóra kom fram að dómsmrn. mun ráða því hvort öðrum aðila verður hleypt inn á neyðar- og öryggisband TETRA sem við ræddum svo ítarlega á föstudaginn var. Fram kom að ekki er hægt að tengja tvö slík öryggisnet saman, þau verða aðskilin, óháð hvort öðru og ef einhver aðili mundi ætla að hafa aðgang að þeim báðum þyrfti hann að hafa tvö tæki á borðinu.

Við vissum það í nefndinni að dómsmrn. ræður því hvort öðrum aðila verður hleypt inn á neyðar- og öryggisband TETRA. En það er líka ljóst að TNet, sem er dótturfyrirtæki Landsvirkjunar, tapaði fyrir Irju, nú Línu.Neti, í útboði Ríkiskaupa á síðasta ári og hefur áformað að fara líka í neyðar- og öryggiskerfi og hefur sótt um það til Póst- og fjarskipastofnunar. Póst- og fjarskiptastofnum hefur óskað umsagnar dómsmrn. hvort æskilegt sé að tveir aðilar starfi á neyðar- og öryggisbandi TETRA og dómsmrn. hefur ekki svarað þeirri umsagnarbeiðni. Þetta var staðfest í morgun.

Þess vegna hefur Póst- og fjarskiptastofnun ekki afgreitt umsókn undirfyrirtækis Landsvirkjunar, TNets. Þess vegna er Alþingi að gefa lagaheimild til Landsvirkjunar til að eiga í slíku félagi, félagi sem alveg frá því í fyrra hefur áformað að eiga hlut að þessum fjarskiptamarkaði og félagi sem hefur þegar keypt TETRA-kerfi hingað til lands. Þetta má sjá á heimasíðu Nokia, ef menn hafa fyrir því að fara þar inn, en þar kemur fram að TETRA-kerfi hafi verið selt til TNets og verið sé að setja það upp á Íslandi.

Allt þetta kom fram við umræðu á föstudaginn um málið og það sem ég hef rakið var staðfest á fundi nefndarinnar í morgun.

Þess vegna mun ég ekki lengja umræðuna, einungis greina frá því hvað fram kom í nefndinni. Ég vil þó að lokum, herra forseti, taka fram að málið er mun flóknara en það birtist okkur í þessu litla lagafrv. Það hefur líka komið fram í umræðunni að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lagði fram spurningar í átta töluliðum á fundi stjórnar Landsvirkjunar 19. mars sl. og var með greinargerð með þeim spurningum og taldi hún að ekki væri komið að því fyrir Landsvirkjun að afgreiða aðild sína að TNeti fyrr en stjórn Landsvirkjunar væri búin að fara ítarlega yfir málið. En síðan hefur ekki verið haldinn fundur þar.

Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa niðurlagsorð greinargerðarinnar, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Eins og þarna kemur fram er það stjórnar Landsvirkjunar að taka ákvarðanir um hversu langt fyrirtækið skuli ganga í rekstri fjarskiptafyrirtækja þegar lagaheimildir í því efni liggja fyrir.`` --- Þarna er verið að vísa til umræðu á Alþingi. --- ,,Aðkoman að TNeti byggðist á forsendum um samstarf Landsvirkjunar og annarra aðila á sviði öryggismála, Public Safety, að fengnum nauðsynlegum heimildum í lögum. Í útboði Ríkiskaupa á öryggisþjónustu fyrir lögreglu og slökkvilið var tilboði annars aðila um TETRA-fjarskiptaþjónustu tekið. Forsendur eru því mjög breyttar frá því tekin var ákvörðun um þátttöku í TNeti á sínum tíma. Nýjar og breyttar forsendur krefjast vandaðrar og ítarlegrar umfjöllunar í stjórn Landsvirkjunar.`` Svo segir fulltrúi borgarinnar, hins stóra eignaraðila Landsvirkjunar.

Málið allt er fremur vandræðalegt eins og það hefur verið rakið hér. Málið allt eins og það hefur verið rakið í umræðu er allt öðruvísi vaxið en það var kynnt við 1. umr. málsins. Það höfum við, fulltrúar Samfylkingarinnar hér á Alþingi, rakið og farið ítarlega yfir. Þetta mál reynist allt annað en lagt var upp með og allt annað en hvernig mælt var fyrir því við 1. umr. Við höfum varpað ljósi á hvernig málið er vaxið, við höfum kallað eftir upplýsingum í iðnn. sem hafa skýrt stöðu málsins og á þessum morgni hefur verið staðfest að enn er ýmislegt óafgreitt sem varðar aðild Landsvirkjunar að öryggis- og neyðarbandi TETRA-kerfisins.

Um það munum við ekki fremur véla eins og hér hefur komið fram. Hins vegar hefur það komið skýrt fram að lagaheimild, sem hefði átt að vera til staðar áður en allt þetta mál fór af stað, er fyrst sótt núna og fyrst afgreidd núna í apríl og þetta eru ekki góð vinnubrögð. Ég harma að málið hafi verið þannig vaxið að það hafi þurft að toga fram hvert einasta atriði sem að því snýr. Miðað við það sem hér hefur komið fram og málflutning okkar munum við vera með óbreytta afstöðu við afgreiðslu málsins við 3. umr.