Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 14:34:27 (6330)

2000-04-11 14:34:27# 125. lþ. 97.15 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[14:34]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil sérstaklega árétta að um þennan þátt frv. eða það sem felst í þessu frv., að Landsvirkjun geti stofnað félag um dreifikerfi sitt og leigt aðgang að því, hefur ekki verið mikill ágreiningur enda hefur ekki farið fram mikil umræða um þann þátt. Hv. alþm. Pétur Blöndal hefur þó vakið á því athygli að Landsvirkjun sé e.t.v. eini aðilinn sem gæti keypt Landssímann og þá sameinað dreifikerfin tvö á hálendinu og svo afganginn af landinu. Það er eitthvað sem við eigum kannski að staldra við og hugsa um, hvers lags risi það yrði ef hann yrði svo einkavæddur. Þess vegna er umræðan um þann þátt málsins ekki hvort heldur hvernig.

Umræðan um hinn þátt frv. hefur verið um aðild að fjarskiptafyrirtækjum, hvernig ber það að, hver er forsagan og að Landsvirkjun sætti sig ekki við að bíða lægri hlut á markaði í opnu útboði Ríkiskaupa. Svo einfalt er það mál.

Af því menn hafa talað svolítið í kross um þennan þátt að leigja aðgang að breiðbandinu og hinn þáttinn, TETRA-bandið, sem Landsvirkjun eða undirfyrirtæki þess er að sækja inn á, þá er það þannig, virðulegi forseti, að það er almenn rás á TETRA-bandinu og um þá rás sóttu tveir núna í þessari atrennu, það er samkeppnismál að mínu mati. Um hina rásina, bandið þar sem neyðar- og öryggislínan er, er einn aðili fyrir, samkvæmt úthlutun frá Ríkiskaupum eftir útboð í fyrra. Þangað er TNet, undirfyrirtæki Landsvirkjunar, að sækja inn og við höfum verið að benda á að það fellur ekki að því sem við höfum fengið upplýsingar um í iðnn. bæði nú og áður. Þetta eru meginþættir málsins. Þetta er ekki spurning um hvort heldur hvernig og hvernig orðalag væri á lagagreininni. Við vorum að hugsa um að flytja brtt. um það en munum ekki hafa afskipti af eftir það sem hér hefur komið fram.