Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 14:51:05 (6333)

2000-04-11 14:51:05# 125. lþ. 97.16 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Vestf., Guðjón A. Kristjánsson, gerði grein fyrir nál. 1. minni hluta sjútvn. en ég er samþykkur því nál. sem áheyrnarfulltrúi í sjútvn. fyrir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð.

Við verðum að átta okkur á því að bullandi óánægja er með sjávarútvegsstjórnina í samfélaginu. Við því hefur verið brugðist með ýmsum hætti. Hæstv. ríkisstjórn hefur skipað nefnd til að endurskoða sjávarútvegsstefnuna. Og það er ótækt að á sama tíma og þessi nefnd er að störfum, meðan við upplifum bullandi ágreining í samfélaginu um hvernig fara skuli með stjórn auðlindarinnar og á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn hefur viðurkennt að nauðsynlegt sé að koma á svokallaðri sáttanefnd til að fara í þessi mál, þá skulum við setja fram frv. til að binda veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum sem hafa hingað til verið utan við sviga.

Undir þetta getum við ekki skrifað og segjum því í áliti 1. minni hluta, með leyfi forseta:

,,Með hliðsjón af því að samkvæmt gildandi lögum skal sjávarútvegsráðherra fyrir 1. nóvember nk. leggja fyrir Alþingi frumvarp um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum eftir árið 2000 má vænta þess að breytingar verði á lögunum sem hafi áhrif á veiðistjórnunina þegar á næsta ári. Því telur 1. minni hluti ekki þörf á þessari lagabreytingu og leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``

Ég vil bara árétta að við völdum þessa leið í sameiningu að setja frá okkur minnihlutaálit saman, ég sem áheyrnarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og fulltrúi Frjálslynda flokksins í sjútvn. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að í endurskoðunarnefndinni eru skiptar skoðanir um hvernig eigi að nálgast þjóðarsátt í sambandi við stjórn fiskveiða. Þess vegna völdum við ekki þá leið að merkja okkur hver með sinni flokksstefnu varðandi þetta mál. Ég tel nauðsynlegt að þeir aðilar sem eiga fulltrúa hér á þingi geti farið inn í þessa endurskoðunarvinnu með eins hreint borð og kostur er á. Þess vegna er forkastanlegt, út frá mínum bæjardyrum séð, að koma með frv. af þessu tagi og binda norsk-íslenska síldarstofninn þegar fyrir liggur að við ætlum að hraða þessari vinnu og koma á borðið sáttatillögu sem þjóðin getur vonandi unað við. Það er mergurinn málsins í allri þessari vinnu.

Við munum leggja okkar áherslur fram í endurskoðunarnefndinni, um endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég vona svo sannarlega, eins og ég hef sagt áður í sambandi við umræðu um sjávarútvegsmál hér í þinginu, að þessi nefnd geti hraðað störfum því það er sannarlega þörf á því. Ég vildi bara koma þessum sjónarmiðum mínum á framfæri, virðulegi forseti, en tel ekki ástæðu til að lengja mál mitt frekar.