Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 14:55:34 (6334)

2000-04-11 14:55:34# 125. lþ. 97.17 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[14:55]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Umræðan um þetta mál hér í gær var hálfendaslepp þar sem henni var frestað en nú skal tekinn upp þráðurinn þar sem frá var horfið.

Formaður hv. félmn., Arnbjörg Sveinsdóttir, fylgdi úr hlaði nál. félmn. og sömuleiðis hafði hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir stigið hér í stól. Þær fluttu báðar, reyndar ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, ágætar ræður um málið.

Frv. sem hér liggur fyrir varðar breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Það er satt að segja lítið að burðum, einungis ein málsgrein, þar sem ráðherrann hefur lagt til að settar verði reglur sem skilgreini nánar einstök störf sem falla undir undanþágu samkvæmt 1. mgr. 14. gr. Það er alls ekki ljóst, hvorki í grg. né í þessari tillögugrein, við hvað er átt eða hvert markmið lagagreinarinnar er. Það er vægast sagt loðið.

Þó er ljóst, herra forseti, að málið varðar þá er koma inn í landið á undanþáguákvæði í lögunum um atvinnuréttindi útlendinga. Við vitum öll, sem hér erum í þessum sal og höfum tekið þátt í þessum umræðum, við hverja er átt. Þar er átt við nektardansara. Hæstv. ráðherra kýs að nefna þá ekki á nafn í grg. með frv. heldur talar í mörgum orðum um skilgreiningu starfsheitisins listamaður. Hv. félmn. veit hins vegar alveg við hvað hæstv. ráðherra á og kallar hlutina sínum réttu nöfnum. Í nál. hv. félmn. eru nektardansarar nefndir á nafn og málið tekur aðeins að skýrast.

Það má þakka nefndinni fyrir að kalla hlutina sínum réttu nöfnum en þó finnst mér að í áliti nefndarinnar gæti enn einhvers konar hálfkáks. Brtt. nefndarinnar mætti að ósekju vera skýrari og í henni mætti kveða fastar að orði. Ég kem aðeins inn á það aftur síðar í máli mínu, herra forseti. En hvers konar mál er þetta sem hér um ræðir? Hvers vegna þorir hæstv. félmrh. ekki að tala beint út og kalla hlutina sínum réttu nöfnum?

Herra forseti. Fyrr í vetur var utandagskrárumræða hér í þessum sal. Til hennar efndi hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir. Yfirskrift þeirrar utandagskrárumræðu var ,,verslun með manneskjur``. Hér stigu margir þingmenn í pontu og ég held ég muni það rétt að allir þeir sem tóku til máls við þá utandagskrárumræðu lýstu miklum áhyggjum yfir málefnum þeirra skemmtistaða sem kenna sig við erótískan dans. Hv. þm. voru sammála um að hér væri stórmál á ferðinni sem bæri að taka föstum tökum. Nú liggur eitt af þeim frv. sem nánast er afrakstur þeirrar utandagskrárumrræðu fyrir hér. Mér finnst satt að segja allt of mikil hula hvíla yfir því sem hér er verið að fjalla um. Ég tel að hér sé málið tekið allt of miklum vettlingatökum og af allt of mikilli mildi.

Herra forseti. Við erum að tala um nútímaþrælahald. Það er hvorki meira né minna en það. Á ensku er þetta kallað ,,trafficking in human beings``. Það er alvarlegt vandamál sem tekur afskaplega mikið pláss í alþjóðlegri umræðu þessa dagana. Þess má geta að fyrir stuttu var haldin á Filippseyjum þriggja daga ráðstefna 23 þjóðlanda sem var að reyna að taka á þessu máli. Við setningu þeirrar ráðstefnu sagði Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að mansal væri það vandamál í skipulagðri glæpastarfsemi sem væri í hvað örustum vexti í heiminum í dag.

[15:00]

Hún fullyrti að sala barna og kvenna til kynlífsþrælkunar væri orðin þriðja stærsta tekjulind skipulagðra glæpahringja í heiminum næst á eftir vopna- og eiturlyfjasmygli. Talið er að á hverju ári sé ein milljón kvenna og barna seld mansali til kynlífsþrælkunar víðs vegar um heiminn. Þessa staðreynd kallar frú Madeleine Albright svívirðilega og skammarlega verslun sem brengli efnahagskerfi okkar og niðurlægi samfélag okkar. Herra forseti, ég er hjartanlega sammála henni og ég spyr: Gerir hæstv. félmrh. sér ekki grein fyrir því að hér er um anga af þessu stóra alheimsvandamáli að ræða?

Sér ekki hæstv. félmrh. að hér er þörf á skýru tungumáli og skýrum aðgerðum? Mér sýnist ekki, herra forseti. Hann kýs að tala enn um nektardansara sem listamenn, í hæsta lagi svolítið öðruvísi listamenn sem þurfi kannski aðeins öðruvísi reglur en aðrir listamenn sem koma til starfa til landsins frá útlöndum. Hæstv. samgrh. gerir sig sekan um sömu glámskyggni og hæstv. félmrh. og sama máttleysið. Í frv. hans sem liggur nú fyrir þinginu til breytinga á lögum um veitinga- og gististaði bætir hæstv. samgrh. inn þremur flokkum í flokkun skemmtistaða án þess að í skilgreiningum sé gerð nánari grein fyrir því hvers vegna þurfi að gera það, nema að það hafi ekki verið flokkað hingað til. Því er lýst að orðið hafi svo mikil breyting á veitingahúsamarkaðnum að við séum farin að eignast krár, kaffihús og nektarstaði. Þess vegna býr hæstv. samgrh. til frv. sem flokkar skemmtistaðina á þennan hátt. Kaffihús, krár og næturklúbbar.

Í greinargerð með frv. er þess getið að undir flokk næturklúbba skuli falla þessir nektardansstaðir. Frv. samgrh. virðist þannig ekki hugsað til að takmarka á nokkurn hátt fjölda nektarstaða og lýsir ekki heldur áhyggjum af ólöglegri starfsemi í tengslum við slíka staði. Hann gerir í raun það sem virðist einnig samþykkt í nál. hv. félmn. en þar kemur fram að sveitarfélögunum verði þar með fengin úrræði sem geri þeim kleift að hafa áhrif á hvar verði leyft að reka nektarstaði. Það er reyndar kallað erótískir veitingastaðir í frv. Rétt væri að óska eftir því að hæstv. ráðherra kalli hlutina sínum réttu nöfnum. Að mínu mati er eðlilegra, herra forseti, að hér sé bara talað um nektardansstaði en ekki erótíska veitingastaði. Hér eru sem sagt lagðar til lausnir á því hvar verði leyft að reka nektardansstaði en ekki hvort það sé vilji löggjafans að slíkir staðir séu heimilaðir yfir höfuð eða á hvern hátt þeir séu heimilaðir.

Hæstv. samgrh. er að mínu mati hlynntur því að slíkir staðir séu starfræktir hér. Það virðist því miður líka eiga við um hæstv. félmrh. og ég lýsi því líka hér, herra forseti, að mér finnst eins og hv. félmn. taki enga afstöðu í því máli hvort hér eigi bara að hleypa hlutum í gegn og löggjafinn sé sáttur við að staðir af þessu tagi séu reknir hér, svo fremi að þeir heiti erótískir skemmtistaðir eða eitthvað á þá lund.

Herra forseti. Ég hefði viljað sjá tekið á þessum málum á annan hátt. Ég hefði viljað heyra frá formanni hv. félmn. hvort ekki hafi verið rætt í nefndinni um möguleika á því að stytta tímann sem undanþága þessara dansara næði til. Nú er það alkunna að erlendir listamenn sem koma til að flytja list sína hér á Íslandi starfa hér kannski bara eina helgi og kannski ekki þörf á fjögurra vikna undanþáguheimild. Ég hefði gaman af að heyra frá nefndinni hvort það hafi ekki komið til umræðu, möguleikinn á styttra undanþáguákvæði.

Einnig er rétt að vekja athygli þingheims á því að í brtt. hv. nefndar er einungis rætt um að einhver hluti nektardansara verði háður dvalarleyfum og þurfi að leggja fram heilbrigðisvottorð. Ég held að það sé rétt skilið hjá mér, herra forseti. Ég get ekki séð annað en að nektardansarar frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins eigi að vera undanþegnir þeim takmörkunum. Ég vildi gjarnan fá viðbrögð frá þeim nefndarmönnum varðandi þessa athugasemd mína.

Síðan virðist eiga að fela málið alfarið hæstv. ráðherra félagsmála sem greinilega er ekki í betra sambandi við raunveruleikann en svo að hann telur ekki þörf á að nefna nektardansara á nafn í máli sem fjallar fyrst og fremst um þá. Við höfum ótal vísbendingar um að hér séu brotin lög í þessu landi. Við höfum ótal vísbendingar um að stúlkurnar sem hingað koma til að dansa á nektardansstöðum komi oftar en einu sinni á ári. Við höfum frétt að þær komi allt upp í fjórum sinnum á ári, á fölsuðum vegabréfum, mögulega framleiddum og gefnum út af mafíunni. Um þetta höfum við sterkar vísbendingar. Við höfum sterkar vísbendingar um að þessar stúlkur líði hörmungar og á þeim séu framin mannréttindabrot. Við höfum undir höndum afrit af samningi sem nektardansari hefur gert við veitingastað þar sem nánast hver einasta klásúla í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna virðist brotin á þeirri stúlku.

Herra forseti. Ég vil meina að sá samningur hafi verið, ef rétt er að hann hafi verið skilinn eftir í Flugleiðavél, neyðaróp frá dansara sem hefur þurft að þola mannréttindabrot af hálfu Íslendings sem ræður hann í vinnu.

Herra forseti. Ég tel hér um miklu alvarlegri mál að ræða en svo að við getum sætt okkur við þetta frv. frá hæstv. félmrh. Þess vegna auglýsi ég eftir frekari útskýringum frá hv. félmn. Ég hefði viljað sjá miklu fastar kveðið að orði í nál. því sem hér liggur fyrir. Okkur er nauðsynlegt að opna augun upp á gátt og gera allt sem við getum til að stemma stigu við alþjóðlegri glæpastarfsemi hér á Íslandi. Við eigum að leggja allt í sölurnar til að fólk geti komið hingað með reisn og haldið höfði en hér séu ekki framin mannréttindabrot á skemmtistöðum hinum megin við götuna.