Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 15:07:27 (6335)

2000-04-11 15:07:27# 125. lþ. 97.17 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, Frsm. ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[15:07]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst nokkuð langt gengið þegar hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir lýsti yfir að hæstv. félmrh. og hæstv. samgrh. væru hlynntir þeim rekstri sem hér er verið að bregðast við. Hún gaf jafnvel í skyn að félmn. sem er að afgreiða þetta mál frá sér núna sé hlynnt því reknir séu í miklum mæli nektardansstaðir. Hún vísaði jafnframt til óhugnaðar eins og mansals og kynlífsþrælkunar. Var það rétt skilið hjá mér að hv. þm. væri að gefa það í skyn að við værum hlynnt slíku? Mér gersamlega ofbauð þessi ræða hv. þm.

Hún beindi tveimur spurningum til mín, m.a. hvort við hefðum rætt það í nefndinni hvort stytta ætti þann tíma sem undanþága væri gefin listamönnum og reyndar varðandi fleiri atvinnugreinar sem nefndar eru í lögunum. Það kom til tals en m.a. vegna þess að listamenn og félög listamanna eru ekki hlynnt því að þessi dvalarleyfistími verði styttur þá töldum við ekki ástæðu til þess.

Varðandi þá sem koma af EES-svæðinu, fái þeir dvalarleyfi hér á landi þá hafa þeir samkvæmt EES-samningnum sjálfkrafa atvinnuleyfi. Þeir sem koma utan EES-svæðisins þurfa að sækja um dvalarleyfi og atvinnuleyfi og uppfylla þau skilyrði, sem ég fór yfir í ræðu minni í gær að þyrftu að vera fyrir hendi, til að fá atvinnuleyfi.