Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 15:09:38 (6336)

2000-04-11 15:09:38# 125. lþ. 97.17 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[15:09]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er svo sem ekki hissa á því þó hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur blöskri ræða mín hér áðan. Mér blöskrar líka það sem er að gerast hér í kringum okkur og mér blöskrar þær vísbendingar sem við höfum. Mér sýnist hv. þm. ekki taka nægilega eftir því eða gefa nægilegan gaum. Mér sýnist á þessu nál. að hér sé hv. félmn. að leggja því lið að nektardansarar komi til landsins með sama móti og hingað til því í nál. segir, með leyfi forseta:

,,Með því er unnt að gera erlendra nektardansara sem koma hingað til lands í atvinnuskyni háða reglum um atvinnuleyfi.``

Hér er einungis rætt um að hér geti fólk komið en það eigi að vera háð reglum um atvinnuleyfi og dvalarleyfi.

Þess vegna segi ég, herra forseti, að mér finnst ekki tekið þannig á málum að Alþingi sé sómi að.