Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 15:11:37 (6338)

2000-04-11 15:11:37# 125. lþ. 97.17 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[15:11]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg óþarfi fyrir hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur að reiðast því að ég telji hv. nefnd taka með ákveðnum vettlingatökum á þessu máli. Obbinn af þessu frv. fjallar um nektardansara og inngangurinn að nál. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Nú fer fram heildarendurskoðun á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, en samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneyti hefur orðið gífurleg fjölgun í hópi þeirra sem koma hingað til lands í allt að fjórar vikur árlega og stunda vinnu á nektarstöðum`` og svo kemur áframhaldandi kafli í nál. fram á aðra síðu sem fjallar einungis um nektardansara. Síðan segir í nál., herra forseti:

,,Nefndin lítur svo á að ákvæði frumvarpsins muni auðvelda yfirvöldum að hafa eftirlit með a.m.k. hluta þeirra kvenna sem hingað koma í stuttan tíma árlega í þeim tilgangi að stunda nektardans.``

Herra forseti. Hér er ekki verið að fjalla almennt um atvinnuréttindi útlendinga heldur fyrst og fremst verið að fjalla um vandamál sem við eigum við að stríða, þ.e. nektardansara sem koma hingað til lands án atvinnuleyfa, án dvalarleyfa, án þess að fara í nokkra læknisskoðun og án þess að réttinda þeirra sé gætt. Við höfum vísbendingar um að mannréttindi séu brotin á þessu fólki og Alþingi á að taka fastar á þessum málum en hér er gert.