Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 15:15:46 (6340)

2000-04-11 15:15:46# 125. lþ. 97.17 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðustu orð hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar þá hef ég ekki talað fyrir því að rýmkaðar verði heimildir útlendinga til að koma inn í landið. Ég hef ekki rætt um það. Ég er hins vegar að tala um að í þessu tilfelli þurfi að fylgjast betur með en gert er. Ég tek undir þau orð hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar sem vakti athygli á að í frv. hæstv. samgrh. er einungis talað um að flokkun skemmtistaðanna ljái sveitarfélögunum vopn í hendur til að hafa hönd í bagga með hvar nektardansstaðir séu reknir en ekki hvort. Löggjafinn hefur ekki verið spurður, herra forseti, hvort við viljum hafa nektardansstaði í bænum eða ekki en við eigum að fá að taka afstöðu til hvar þeir séu, til laga sem gefa sveitarstjórnum heimildir til að ákveða hvar þeir eru.

Herra forseti. Ég spyr: Ef við viljum að nektarstaðir séu til staðar í Reykjavík, eigum við þá að vera að draga fólk í dilka og ákveða hvar þeir eru heimilaðir? Finnst okkur eðlilegra að þeir séu reknir í úthverfunum, t.d. í Grafarvogi, Breiðholti, suður í Kópavogi eða kannski í Hafnarfirði frekar en í miðbæ Reykjavíkur?

Herra forseti. Mér finnst við ekki ræða um það sem málið snýst um þegar við tölum um hvar skemmtistaðirnir séu. Við ættum að tala um hvort okkur finnist eðlilegt að þeir séu yfir höfuð.