Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 15:28:28 (6344)

2000-04-11 15:28:28# 125. lþ. 97.17 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[15:28]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það hefur heldur betur færst fjör í leikinn í umræðum um þetta litla frv. Eins og fram kemur í grg. með frv. er það einkum ætlað til að veita félmrh. skýra lagaheimild til að setja reglur sem skilgreini hverjir falli undir undanþágulið b í 14. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga og geti talist listamenn í skilningi laganna. Í mínum málflutningi varðandi þetta mál gagnrýndi ég einkum það að þessir nektardansarar væru látnir falla undir þetta ákvæði. Mér sýnist að þetta litla frv. taki þó á því. Mér finnst að ef það væri sérstaklega tekið fram, að það fjallaði bara um nektardansara, þá væri það þrenging á þessu ákvæði. Það er alla vega minn skilningur. Ég styð þetta eins og það liggur fyrir hér.

En það var af öðru tilefni sem mig langaði að koma hér upp. Það var vegna þess að hér fylgir brtt. við 13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga frá 1994. Samkvæmt tillögu félmrn. er þessari brtt. ætlað að undanþiggja maka íslenskra ríkisborgara skilyrðum laganna um atvinnuleyfi, enda hafi þeir fengið dvalarleyfi hér á landi eða afhent skráningaryfirvöldum norrænt flutningsvottorð. Ég fagna sérstaklega þessari tillögu. Hún hefði mátt koma fram fyrr. Ég hef skýrt frá því á undanförnum mánuðum hversu gríðarlegur vandræðagangur hefur verið í þessum málum. Ég kynntist persónulega fólki sem var að því komið að þurfa að flytja úr landi, það var gift Íslendingum en gat ekki fengið vinnu vegna þess að ferillinn fyrir umsókn um atvinnuleyfi var svo flókinn. Þetta virtist í algerri mótsögn við það sem var í öðrum EES-ríkjum. Hér hefur verið tekið á þessu máli í eitt skipti fyrir öll og ég þakka það sérstaklega. Vonandi siglir svo í kjölfarið alger endurskoðun á lögum um útlendinga frá 1965 sem ég tel mjög ríka þörf á og vona að henni verði hraðað sem mest má.