Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 15:40:38 (6348)

2000-04-11 15:40:38# 125. lþ. 97.17 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[15:40]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessi svör sem gefa mér alla vega ákveðnar útskýringar umfram það sem er í nál. Við þurfum að ganga þannig frá málinu að ljóst sé hvað menn eru að fara og hvaða reglur gilda. Við höfum ekki alltaf viðkomandi lög við höndina. Ég efast ekki um að farið hafi verið yfir þetta í framsöguræðu hv. þm. en hins vegar komu ekki svör við spurningu minni um hvort tekið er tillit til þeirrar vinnu sem hefur átt sér stað í Evrópuráðinu. Þar er reynt að taka á þessu og samræma þær reglur sem gilda hjá Evrópuþjóðunum og öllum aðildarþjóðum Evrópuráðsins. Ég veit að drög að slíkum reglum voru send til ráðherraráðsins. Það hefur ekki verið gengið frá þeim en voru þær notaðar við mótun þessa frv. og í vinnu nefndarinnar? Mér finnst það skipta máli.

Ég held að það sé afar erfitt að vísa til stéttarfélags varðandi þessa sérstöku starfsgrein, nektardans. Ég efast um að þau eigi aðild að því stéttarfélagi sem hv. þm. vísaði til. Það er kannski þörf á því að til verði stéttarfélag og menn setji sér starfslýsingar þannig að ekki eigi sér stað atburðir eins og hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir lýsti hér áðan.