Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 15:48:43 (6351)

2000-04-11 15:48:43# 125. lþ. 97.19 fundur 359. mál: #A almenn hegningarlög# (vitnavernd, barnaklám o.fl.) frv. 39/2000, Frsm. ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[15:48]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá allshn. um frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum almennra hegningarlaga. Helstu breytingar eru þær að lagt er til að tekið verði fram í lögunum að við ákvörðun refsingar hafi áhrif hvort sakborningur hefur upplýst um aðild annarra að brotinu. Einnig er lagt til að bætt verði við lögin sérstöku ákvæði um refsinæmi brota sem beinast að vitnum, lagt er til að sektarhámark í hegningarlögum verði afnumið og lagðar eru til breytingar sem veita börnum frekari vernd gegn barnaklámi.

Samkvæmt 210. gr. almennra hegningarlaga varðar það refsingu, sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum að framleiða, flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá til sýnis. Þá varðar það sömu refsingu að láta af hendi við unglinga, yngri en 18 ára, klámrit, klámmyndir eða aðra sambærilega hluti.

Í 4. mgr. 210. gr. hegningarlaga er síðan lögð refsing við því að hafa í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða aðra sambærilega hluti sem sýna börn í kynferðisathöfnum með dýrum eða nota hluti á klámfenginn hátt. Það er hins vegar ekki lögð sérstök refsing við því í hegningarlögum að búa til, flytja inn, selja, útbýta eða dreifa klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum sem sýna börn á kynferðislegan hátt eða klámfenginn hátt. Refsingin er sú sama hvort sem börn eru notuð til framleiðslu efnisins eða fullorðnir. 4. mgr. 210. gr. hegningarlaga fjallar því einvörðungu um vörslu barnakláms, en framleiðsla, dreifing og vörslur á slíku efni varða sömu refsingu hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna. Í þessu frv. er hins vegar verið að veita barninu enn frekari vernd við því ofbeldi sem framleiðsla og dreifing á barnklámi er.

Við meðferð málsins hjá nefndinni kom fram tillaga frá ríkissaksóknara um að gera breytingar á 5. mgr. 57. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu skal dómari kynna dómfellda rækilega skilyrði skilorðsdóms og afleiðingar skilorðsrofa. Í þeim tilvikum þegar dómfelldi hefur ekki verið viðstaddur uppsögu skilorðsbundins héraðsdóms hefur lögregla birt dóminn. Dómari hefur ekki heimild til að fela öðrum að kynna dómfellda skilyrði skilorðsdóms og afleiðingar skilorðsrofa.

Að mati nefndarinnar er rétt að leggja fram breytingu sem heimili dómara að fela lögreglu að kynna dómfellda skilorð dóms og afleiðingar skilorðsrofa hafi hann ekki verið viðstaddur dómsuppsögu. Dómari ætti um leið að láta lögreglu í té leiðbeiningar um hvernig kynna beri skilorð og afleiðingar skilorðsrofa.

Nefndin leggur einnig til lagfæringar á 5. gr. Lagt er til að vísun til 225. gr. laganna um nauðung falli brott. Fjallað er um nauðung í fleiri ákvæðum almennra hegningarlaga og telur nefndin ekki rétt að ákvæðið takmarkist við nauðung skv. 225. gr. Þá er í frumvarpinu lagt til að heimilt verði að beita sektum ef brot er smávægilegt eða sérstakar málsbætur eru fyrir hendi. Brot sem beinast að vitnum geta tæplega talist smávægileg og því er lagt til að sektarheimild verði bundin við málsbætur.

Herra forseti. Nefndin mælir með samþykkt frv. með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.