Notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 16:31:16 (6358)

2000-04-11 16:31:16# 125. lþ. 97.20 fundur 233. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[16:31]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög dapurlegt að frsm. minni hluta nefndarinnar skuli ekki geta talað um þetta mál eins og það liggur fyrir. Málið liggur þannig fyrir að Veðurstofan tók ákvörðun um að fara að mæla vindstig í metrum í staðinn fyrir vindstigum. Það er sérstök ákvörðun og hér er ekki við henni amast. Það eina sem við segjum er að við skiljum ekki af hverju nauðsynlegt var að hætta að nota íslensk falleg orð í veðurlýsingum eins og áður, orð sem þjóðin þekkir. Það er auðvitað alveg út í hött þegar verið er að halda því fram að Íslendingar eigi erfiðara með að skilja orð eins og andvari, kul, stormur en fimm metrar á sekúndu eða 25 metrar á sekúndu. Þetta er bara bull, hreint bull. Mér finnst sorglegt að á Alþingi skuli koma upp deila um það hvort við eigum að reyna að halda litbrigðum tungunnar. Þegar embættismenn gefast upp á því að lýsa áfram veðurfari með þjóðlegum hætti, með sama hætti og maður hefur alist upp við, þá skuli vera talsmenn þess á Alþingi, við Orðabókina og víðar sem eru guðslifandi fegnir yfir því að ekki skuli heyrast lengur í útvarpinu logn eða kul, andvari. Og við erum taldir einhverjir þrætubókarmenn út af því að við viljum hafa svona orð áfram. Það er undarleg kennd, verð ég að segja.

Ég get alls ekki skilið af hverju verið er að blanda inn í þetta vindstigunum gömlu. Það var enginn að tala um nein vindstig, ekki nokkur maður. Hér er ekki minnst einu einasta orði á þau. Að vísu þekkja margir betur til vindstiga en metra á sekúndu. Mér er sagt að praktískt sé að deila með tveim í vindstigin eða margfalda með tveim eftir því hvor viðmiðunin er. Það er svo allt annað mál. Ég held að ég biðji minni hlutann að reyna að flytja mál sitt í samræmi við það mál sem hér liggur fyrir.