Notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 16:35:46 (6360)

2000-04-11 16:35:46# 125. lþ. 97.20 fundur 233. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[16:35]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér er ekki alveg ljóst af hverju minni hlutinn fór að velta þumlungum fyrir sér. Mér finnst satt að segja að minni hlutinn þumlungist áfram í málflutningi sínum í þessu. Það mætti kannski vera svona meiri reisn yfir honum satt að segja.

Málið snýst um þetta, herra forseti, að ég og ýmsir aðrir höldum því fram að á því fari vel að nota þau gömlu orð í veðurfregnum sem áður heyrðust, þ.e. logn, hægur vindur, andvari, kul, gola, kaldi, stinningskaldi, allhvass vindur, hvassviðri, stormur, rok, ofsaveður og fárviðri. En hér eru aðrir þingmenn sem eru guðslifandi fegnir yfir því að þetta skuli ekki lengur heyrast, óskaplega fegnir yfir því að ekki sé verið að þvinga Veðurstofuna til þess að bera annað eins fram og þetta sem ég var að lesa. Þeir þingmenn eru óskaplega fegnir yfir því að með því móti verði tungan fátækari og þetta verði svona stofnanalegra satt að segja hjá Veðurstofunni en áður var.

Ég vil segja, ef þessi tillaga verður felld: Til hamingju.