Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 16:49:42 (6370)

2000-04-11 16:49:42# 125. lþ. 97.21 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[16:49]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hlutans í málinu, en hann skipa ásamt mér hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson. Niðurstaða okkar er að leggja til að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar með þeim rökum sem fram koma í nál. á þskj. 793.

Eins og frsm. meiri hlutans sagði er verið að bregðast við niðurstöðu Félagsdóms sem sýknaði Félag íslenskra leikskólakennara af kröfum stefnenda, þ.e. launanefndar sveitarfélaga f.h. Árborgar, um að uppsagnir nokkurra leikskólakennara yrðu dæmdar brot á friðarskyldu á gildistíma kjarasamninga og því ólögmæt vinnustöðvun. Í niðurstöðu sinni vitnar Félagsdómur til laga um stéttarfélög og vinnudeilur, en þar segir í 4. gr.

,,Vinnustöðvanir í skilningi laga þessara eru verkbönn atvinnurekenda og verkföll þegar launamenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði. Sama gildir um aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu atvinnurekenda eða launamanna sem jafna má til vinnustöðvunar.``

En um þetta ákvæði segir í niðurstöðu dómsins, sem er kjarnaatriði:

,,Engin sambærileg breyting hefur verið gerð á ákvæðum laga nr. 94/1986,um kjarasamninga opinberra starfsmanna.``

Niðurstaða Félagsdóms var því að hafna þeirri lögskýringu að almenn ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur tækju til opinberra starfsmanna. En ríkisvaldið hefur valið að breyta því með lögum, eins og hér er gert, sem tapaðist fyrir dómstólum.

Einnig er gagnrýnisvert að stjórnvöld skuli kjósa, meðan kjarasamningar eru í gildi og friðarskylda ríkir, að breyta einhliða og án eðlilegs samráðs við opinbera starfsmenn, lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

En þetta atriði, herra forseti, er raunverulega lykilatriðið, þ.e. samráðsleysi við opinbera starfsmenn að því er þetta tiltekna mál varðar sem við fjöllum hér um. Og má segja að það gangi í gegnum allar þær umsagnir sem fram koma í málinu, að mjög er gagnrýnt að ekki skuli hafa verið farið í heildarendurskoðun á lögunum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, heldur eitt atriði tekið út.

Í nál. okkar í minni hlutanum er minnt á að í árslok 1986 voru sett ný heildarlög um kjarasamninga opinberra starfsmanna að undangengnu samkomulagi milli aðila. Um þá lagasetningu tókst gott samkomulag milli aðila. Hér er snúið við blaðinu því að með þessu frv. er fjmrh. að leggja til að lögum verði breytt einhliða og án samráðs við opinbera starfsmenn.

Forustumenn opinberra starfsmanna hafa haldið því fram að með þessu sé fjármálaráðherra að rifta því samkomulagi sem gilt hefur í 13 ár um samskipti ríkis og sveitarfélaga sem vinnuveitanda og stéttarfélaga opinberra starfsmanna sem fulltrúa launafólks. Þetta eru gagnrýnisverð vinnubrögð ekki síst í ljósi þess að samtök opinberra starfsmanna hafa nýverið ítrekað þá afstöðu sína að rétt væri að endurskoða lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna í heild. Þeir hafa út af fyrir sig ekki hafnað því ákvæði sem hér er til umræðu, heldur vilja eðlilega setja fram þá réttmætu ósk að farið verði í heildarendurskoðun á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Lögðu þeir m.a. fram í efnahags- og viðskiptanefnd samanburð verkfallsheimilda og skyldra atriða um samskipti aðila á vinnumarkaði samkvæmt lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeildur, og samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, að teknu tilliti til breytingar samkvæmt frumvarpinu. Þar kemur fram mikill munur á réttarstöðu opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði að því er varðar samskipti á vinnumarkaði, sem sýnir nauðsyn þess að samræma réttindi og skyldur á opinberum og almennum vinnumarkaði.

En þessi atriði og sá samanburður sem ég nefndi fylgir hér með sem fskj. með nál. okkar vegna þess að þetta er mjög athyglisverður samanburður og sýnir að í samskiptum aðila á vinnumarkaði virðist halla mjög á opinbera starfsmenn að því er varðar ýmis atriði sem tengjast réttindum og skyldum með hliðsjón af kjarasamningum og verkföllum.

Minni hlutinn telur að eðlilegra hefði verið af hálfu stjórnvalda að hefja heildarendurskoðun og samræmingu við almenna vinnumarkaðinn eins og samtök opinberra starfsmanna hafa lagt til í stað þess að leggja til einhliða að breyta einum þætti laga um opinbera starfsmenn til samræmis við ákvæði sem gilda um almenna vinnumarkaðinn.

Þau vinnubrögð sem stjórnvöld hafa viðhaft í þessu máli eru mjög gagnrýnisverð. Með þeim eru samskipti samtaka opinberra starfsmanna og stjórnvalda sett í uppnám, enda virðist ljóst að stjórnvöld hafi lítið lagt upp úr samráði við opinbera starfsmenn í þessu máli, eins og margítrekað kom fram í efh.- og viðskn. hjá þeim aðilum sem mættu til viðtals hjá nefndinni fyrir hönd samtaka opinberra starfsmanna.

Minni hlutinn telur rétt að fjármálaráðherra verði þegar í stað við beiðni samtaka opinberra starfsmanna um að ráðast í heildarendurskoðun á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þar verði leitast við, í fullu samráði við alla aðila, að samræma sem mest réttarstöðu opinberra starfsmanna annars vegar og launafólks á almennum vinnumarkaði hins vegar.

Með vísan til framangreinds leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Ég tel afar brýnt, herra forseti, að slík heildarskoðun fari fram og ég hefði talið mjög eðlilegt að slík heildarendurskoðun lægi fyrir áður en kjarasamningar opinberra starfsmanna verða lausir á haustmánuðum og tel að slík vinnubrögð hefðu verið eðlilegri og réttari í málinu og hefði það fyllilega komið til skoðunar að setja slíkt ákv. til brb. ef farið yrði í slíka heildarendurskoðun af fullum krafti í sumar og henni hefði þá lokið í haust áður en kjarasamningar verða lausir.

Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa mjög mörg orð um þetta mál, en vil þó nefna að í efh.- og viðskn. liggja fyrir tugir umsagna frá ýmsum aðilum um þetta mál, ekki síst frá ýmsum stéttarfélögum opinberra starfsmanna, þar sem þessu ákvæði í frv. er harðlega mótmælt, einkum á þeirri forsendu að þetta sé slitið úr samhengi við heildarendurskoðun á lögunum.

BSRB hefur mótmælt þessu sem þeir kalla ,,samningsrof fjármálaráðherra`` og sendu þeir frá sér ályktun í því efni.

Hjá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna segir, með leyfi forseta:

,,Ef breyta á löggjöf um samningsrétt opinberra starfsmanna í átt að almennu vinnulöggjöfinni er grundvallaratriði að um það takist góð sátt við heildarsamtök opinberra starfsmanna. LSS hefur haft sig í frammi um breytingar á samningsrétti launamanna og hefur talið löngu tímabært að stærri skref verði stigin í þeim efnum.

Eins og fram kemur í umsögn BSRB hefur verið fullur vilji til að ræða þær breytingar sem fram koma í frv. Jafnhliða hefur BSRB lagt fram tillögur um breytingar á lögum sem bandalagið telur brýnt að eigi sér stað samhliða þeirri breytingu sem fjmrh. vill gera með frv.``

Herra forseti. Þetta sem ég vitna hér til er mjög lýsandi fyrir afstöðu einstakra stéttarfélaga og heildarsamtaka, en t.d. í umsögn Bandalags háskólamanna kemur fram að stofnanir BHM hafi margsinnis ályktað að rétt sé að ein vinnulöggjöf gildi í landinu, þar sem vinnumarkaðurinn stefni í þá átt að verða æ einsleitari. Telur BHM að sérlöggjöf á borð við kjarasamning opinberra starfsmanna sé tímaskekkja og beri því að afnema eða taka til gagngerrar endurskoðunar hið fyrsta í samstarfi við aðila sem starfa eftir lögunum.

Ég ætla ekki að tefja tíma þingsins með því að fara ítarlega yfir þær fjölmörgu athugasemdir sem fram hafa komið frá flestum ef ekki öllum stéttarfélögum innan heildarsamtakanna sem öll ganga í eina átt og telja að hér sé um brot á samkomulagi að ræða, eins og segir hjá Félagi íslenskra leikskólakennara, en uppsagnir nokkurra leikskólakennara voru einmitt tilefni þessarar dómsniðurstöðu Félagsdóms, en í umsögninni segir, með leyfi forseta:

,,Það sé óviðunandi fyrir stéttarfélög og félagsmenn þeirra að fjmrh. ætli að breyta lögunum einhliða án samráðs við samtök launafólks og rifta með því samkomulagi sem gilt hefur í samskiptum þessara aðila til margra ára. Slíkar þvinganir eru til þess eins að ala á ófriði og tortyggni á milli samningsaðila. Auk þess mál túlka riftun á samkomulagi um þær reglur sem gilda brot á friðarskyldu á gildistíma kjarasamnings.``

[17:00]

Ég ætla að láta þetta nægja, herra forseti, varðandi umsagnirnar og mun þá hugsanlega frekar koma inn á þær í ítarlegu máli við 3. umr. þessa máls. En ég vil í lokin minna á og halda til haga að fulltrúar stjórnarflokkanna sumra hafa borið því við þegar við höfum verið að ræða hugsanlega lagasetningu um fjármál stjórnmálaflokkanna, að það sé óeðlileg íhlutun þingsins í störf eða starfshætti stjórnmálaflokkanna að setja lög um fjárreiður þeirra. Einmitt með hliðsjón af þeirri hlið mála var það líka skoðað í efh.- og viðskn. hvort ekki væri óeðlilegt að löggjafinn væri sí og æ, ekki bara í þessu máli heldur ekki síst varðandi t.d. lögin um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem er verið að fjalla m.a. um innri málefni stéttarfélaga, að vera með sífellda íhlutun í löggjöf stéttarfélaganna, bæði varðandi kjarasamninga opinberra starfsmanna og stéttarfélög og vinnudeilur, sérstaklega þegar breytingarnar eru gerðar í fullkominni andstöðu við viðkomandi aðila.

Minnisblað barst nefndinni 29. febrúar undirritað af Gísla Tryggvasyni, framkvæmdastjóra Bandalags háskólamanna, um þetta efni. Þar vitnar hann í stjórnarskrárákvæðin, einmitt þau stjórnarskrárákvæði sem fulltrúar sumra stjórnmálaflokkanna bera fyrir sig þegar þeir eru að reyna að færa rök fyrir því að ekki skuli setja lög um fjármál stjórnmálaflokkanna. Orðrétt segir Gísli Tryggvason um þetta ákvæði, með leyfi forseta:

,,Framangreind stjórnarskrárákvæði, ákvæði þjóðréttarlegra réttarheimilda og áratuga löng hefð fyrir lögvernd stéttarfélaga leiðir til þess að stéttarfélög njóti ekki síðri verndar en stjórnmálafélög, sbr. skýrslu nefndar um fjárhagslegan stuðning við stjórnmálaflokka, dags. 18. desember 1998, þar sem segir á bls. 10:``

,,Telja verður, að hið nýja félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar hafi inni að halda frekari löghelgun og vernd fyrir stofnun og starfsemi stjórnmálaflokka en áður var og fortakslausa vernd innri málefna þeirra, sem ekki verður hróflað við af Alþingi.````

Það er einmitt þetta ákvæði sem Gísli Tryggvason framkvæmdastjóri Bandalags háskólamanna nefnir þegar hann segir og heldur því fram að áratugalöng hefð sé fyrir lögvernd stéttarfélaga sem leiði til þess að stéttarfélögin njóti ekki síðri verndar en stjórnmálafélög.

Mér fannst rétt, herra forseti, þar sem þetta kom til tals í nefndinni og framkvæmdastjóri Bandalags háskólamanna setti sína skoðun í þessu efni á blað, að halda því til haga hér í umræðunni þegar við erum að fjalla um einhliða íhlutun stjórnvalda í kjarasamninga opinberra starfsmanna sem öll heildarsamtök og einstök stéttarfélög og aðildarfélög innan heildarsamtakanna hafa harðlega mótmælt. Því er það niðurstaða okkar að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar og fara fram á að sú heildarendurskoðun fari fram sem öll þessi félög kalla eftir.