Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 18:18:08 (6383)

2000-04-11 18:18:08# 125. lþ. 97.22 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, Frsm. 1. minni hluta SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[18:18]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ljóst að hv. þm. er tímabundinn og þess vegna brá ég á það ráð að svara máli hans í stuttum andsvörum fremur en með ræðu á eftir. Ég geri engar athugasemdir við það þó að hann þurfi að fara til annarra starfa. En ég ítreka það sem ég sagði áðan að það er ekki eðlilegt þegar íslensk stjórnvöld gera samning við stjórnvöld annarra ríkja, að þriðji aðili, íslenskt fyrirtæki, þurfi að reka mál fyrir dómstólum í útlöndum og borga stórfé. Sú skylda hvílir að sjálfsögðu á íslenskum stjórnvöldum að þau sjái til þess með þeim aðgerðum sem þau geta gripið til í samskiptum við vinsamleg ríki að samningur sem gerður hefur verið sé virtur. Það finnst mér eðlilegt. Það er klúður að málið skuli vera búið að standa svona óleyst í fleiri ár og síðan skuli vera gripið á því með þeim hætti sem hér er gert.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, herra forseti, að þarna er um það að ræða að í miðju ferli tveggja aðila sem gert hafa með sér samning, og er ekki vitað betur en báðir aðilar séu ásáttir við þann samning, er leikreglum breytt. Búnar eru til nýjar leikreglur, allt aðrar en þær sem voru fyrir hendi þegar samningurinn var gerður og ákveðið að þær taki bara gildi þegar í stað. Hvorugum samningsaðilanum sem eiga hagsmuna að gæta --- þó að þetta séu ekki miklir fjármunir þá kunna þeir að vera stórir fjármunir á grundvelli lítils skipafélags --- er gefinn neinn kostur á því að bregðast við. Ég spyr hv. formann utanrmn.: Finnst mönnum líklegt að þetta sé aðferðin til að greiða fyrir þeim samningum sem eru væntanlegir og skipta Íslendinga miklu um framhald á sérstakri bókun vegna varnarsamningsins?