Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 18:21:27 (6385)

2000-04-11 18:21:27# 125. lþ. 97.22 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, GHall
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[18:21]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Eins og kom fram hjá tveim ræðumönnum áðan, bæði hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og Steingrími J. Sigfússyni, hef ég flutt brtt. við frv. til laga um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna. Ég ætla aðeins að koma að því síðar.

Ég vil hefja mál mitt á þá leið að það vekur athygli manns þegar frv. er lesið að það kemur mörgum sinnum fyrir, bæði í tilteknum greinum og greinargerð, að fyrst og fremst sé verið að fjalla um öryggishagsmuni íslenska ríkisins. Það vekur sérstaka athygli að verið er að fjalla um öryggishagsmuni íslenska ríkisins.

Deilur hafa komið upp vegna þessa skipafélags sem er að flytja vörur fyrir Bandaríkjaher til og frá Íslandi. Tvö skip eru í þessum flutningum. Það sem sinnir bandaríska hlutanum er bandarískt, undir bandarískum fána. En það sem sinnir íslenska hluta flutninganna er hollenskt, mannað hollenskum yfirmönnum en með pólskum hásetum. Þegar litið er (Gripið fram í: ... Eimskip líka.) svo á merkilega greinargerð um forsögu ágreiningsmáls um flutninga fyrir varnarliðið ásamt fylgiskjölum sem Eimskipafélag Íslands hefur sent frá sér, kemur nokkuð merkilegt fram, þ.e. á því sem þeir kalla fskj. I og er milliríkjasamningur Íslands og Bandaríkjanna ásamt samkomulagi honum tengdum frá 24. september 1986. Þar segir varðandi þann hlutann sem snýr að flutningum Bandaríkjamanna að það skip skuli vera bandarískt og undir bandarískum fána, en um það sem snýr að íslenska hluta flutninganna er aðeins tiltekið að þar skuli vera íslensk kaupskipaútgerð.

Annars vegar er talað um bandarískt skip undir bandarískum fána en í hlutanum sem snýr að Íslandi á útgerðin bara að vera íslensk.

Þegar íslenski kaupskipastóllinn er skoðaður kemur í ljós að hann er nokkuð merkileg samsetning. Eimskip er með 11 skip og aðeins eitt undir íslenskum fána. Alls eru sex skip mönnuð íslenskri áhöfn, tvö að hluta en þrjú alfarið með erlendum áhöfnum. Samskip eru mjög fjögur skip, öll undir erlendum fána. Þrjú eru með íslenskri áhöfn en eitt erlendri.

Í frv. sem hér liggur fyrir kemur m.a. fram í greinargerð með málinu, með leyfi forseta, að:

,,Allt frá gerð varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna árið 1951 hafa íslenskir ríkisborgarar starfað fyrir varnarliðið og íslensk fyrirtæki tekið að sér verk fyrir varnarliðið á einn eða annan hátt. Við komu varnarliðsins til Íslands var samfélagsgerðin öll einfaldari en nú er og atvinnuhættir fábreyttari. Þá gætti einnig eðlilegs ótta við áhrif erlendrar herverndar á íslenskt athafnalíf og þjóðlíf, enda voru landsmenn mun færri en nú er og herliðið nokkuð fjölmennt. Íslensk stjórnvöld lögðu því áherslu á að draga úr neikvæðum áhrifum herverndarinnar og þar með úr áhrifum af veru varnarliðsins á íslenskt efnahagslíf. Eftir því sem á leið jókst á hinn bóginn áhersla stjórnvalda beggja ríkjanna á að Bandaríkjamenn nýttu sér íslenskt vinnuafl þar sem því yrði við komið, enda var það beggja hagur að Íslendingar tækju beinni þátt í vörnum lands síns en áður og að Bandaríkjamenn gætu fækkað liðsmönnum sínum í landinu.``

Hér koma öryggishagsmunir fram. Gott og vel. Íslenski hluti farmflutninga fyrir varnarliðið er fluttur með erlendu skipi og erlendri áhöfn. Síðan kemur hér, með leyfi forseta:

,,Framkvæmd varnarsamningsins og afleiddra samninga snertir öryggishagsmuni íslenskra ríkisins, þó í misríkum mæli sé. Hafa ber í huga að þær heimildir sem íslenskum fyrirtækjum eru veittar til viðskipta við varnarliðið eða Atlantshafsbandalagið samkvæmt fyrrgreindum samningum eiga rætur að rekja til öryggissjónarmiða og eru þær því eðlisólíkar heimildum til milliríkjaviðskipta samkvæmt öðrum samningum. Þessar heimildir fela í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að bandarísk stjórnvöld semji einungis við bandarísk fyrirtæki, svo sem var áður en samningar milli ríkjanna um sjóflutninga voru gerðir árið 1986, eða hafi fullt sjálfdæmi um við hvern sé samið, svo sem var um verktöku fram til samkomulags ríkjanna um verkframkvæmd íslenskra aðila árið 1954 eða um kaup á búvörum fram að samkomulagi ríkjanna um kaup á íslenskum eggjum og kjöti frá 1987, svo fáein dæmi séu nefnd.``

Það er athyglisvert að íslenska ríkið hefur áhyggjur af búvörunum og ég er ekki hissa á því. En það kveður við annan tón þegar litið er á íslenska kaupskipastólinn og atvinnutækifærin sem þar hafa farið forgörðum.

,,Það er ósamrýmanlegt íslenskum öryggishagsmunum að íslensk stjórnvöld hafi ekkert um það að segja hvernig aðgangi íslenskra fyrirtækja að samningum við herlið erlends ríkis um sölu vöru og þjónustu eða verkframkvæmd hér á landi sé háttað. ... Að baki öllum fyrrgreindum samningum liggur sú grundvallarregla að íslensk stjórnvöld fari með mat eigin öryggishagsmuna og að þau meti sjálf íslensk fyrirtæki og íslenska ríkisborgara í þessu skyni.``

Ég má til með að halda áfram að vitna í þessa greinargerð, með leyfi forseta. Enn er fjallað um öryggi íslenska ríkisins ljóst og leynt, hagsmuni þess og öryggi:

,,Aukið frjálsræði við stofnsetningu fyrirtækja hér á landi í kjölfar aðildar Íslands að EES-samningnum og bann þess samnings við mismunun á grundvelli þjóðernis kallar einnig á að lagaramminn verði skýrður. Þess hefur þegar orðið vart að evrópsk fyrirtæki nýti sér frjálsan staðfesturétt til að sækjast eftir samningum við varnarliðið. Þá má minna á að í tengslum við almenna frjálsræðisþróun í atvinnulífinu voru ákvæði hlutafélagalaga endurskoðuð og rýmkaðar mjög heimildir erlendra ríkisborgara til eignarhalds á fyrirtækjum skráðum í íslenska hlutafélagaskrá.

Viðskiptasamningar á sviði öryggis- og varnarmála eru hins vegar um margt sérstaks eðlis, enda liggja tiltekin öryggissjónarmið að baki gerð þeirra. ... Ef ekki verður spornað við fæti má gera því skóna að síaukinn hluti viðskipta við varnarliðið, sem af öryggisástæðum er mikilvægt að sé í íslenskum höndum, falli pappírsfyrirtækjum erlendra aðila í skaut. Því er í frumvarpinu leitast við að tryggja að íslensk fyrirtæki í skilningi laganna hafi raunveruleg tengsl við landið, séu virkir þátttakendur í íslensku efnahagslífi og lúti íslenskri lögsögu.``

Það er athyglisvert að Íslendingar á skipum undir erlendum fána lúta ekki íslenskri lögsögu vegna þess að þjóðfáni þess lands sem blaktir við hún á skipi ræður hvernig farið er með öryggismál, hvernig farið er með öll mál sem lúta að sjórétti og annarri lögsögu. Að vísu er þarna undantekning á frá því fyrir um líklega tveim árum, því að íslenskir sjómenn á erlendum skipum íslensku skipafélaganna njóta sama réttar hvað áhrærir Tryggingastofnun ríkisins.

[18:30]

Af því að varaformaður utanrmn. situr hér vildi ég aðeins benda honum á nauðsyn þess vegna orðalags frv. að þar skuli menn koma að sem eiga að njóta og lúta íslenskri lögsögu, að það dugir ekki eitt að vera með skip undir erlendum fána með íslenskri áhöfn. Hún lýtur ekki íslenskri lögsögu. Þess vegna er sú brtt. til komin, virðulegi forseti, sem ég lagði fram, með leyfi forseta:

,,Á eftir 3. tölul. fyrri málsgreinar k-liðar 1. gr. komi nýr töluliður, svohljóðandi: Eiga eða leigja skip sem sigla undir íslenskum fána, mönnuð íslenskri áhöfn, ef fyrirtækið hefur sjóflutninga með höndum.``

Herra forseti. Ég benti áðan á plagg sem ég er með undir höndum. Það er greinargerð um forsögu ágreiningsmála um flutninga fyrir varnarliðið ásamt fylgiskjölum. Greinargerð Eimskipafélags Íslands hefst á þessum orðum: ,,Forsaga ágreiningsmáls um flutninga fyrir varnarliðið, milliríkjasamningurinn frá 1986.`` Ég vildi, með leyfi forseta, vitna aðeins til þessarar greinargerðar Eimskips:

,,Allt frá því á sjöunda áratugnum hafa íslensk skipafélög annast sjóflutninga fyrir bandaríska varnarliðið á Íslandi. Breyting varð þar á árið 1984 er bandaríska skipafélaginu Rainbow Navigation var úthlutað þessum flutningum óskiptum í krafti bandarískra laga frá 1904 sem kveða á um að bandarísk skip sem sigla undir bandarískum fána skuli hafa einokun á flutningum á vegum Bandaríkjastjórnar, þar á meðal fyrir Bandaríkjaher. Lög þessi eru jafnan réttlætt með skírskotun til öryggis- og varnarhagsmuna Bandaríkjanna.``

Nærri sama orðalag og gengur í gegn í því frv. sem við erum að fjalla um. Síðan ætla ég að biðja virðulegan þingheim að hlusta vel á það sem kemur nú frá Eimskipafélagi Íslands:

,,Íslensk stjórnvöld vildu ekki una þessari einokun bandarísks skipafélags á varnarliðsflutningum og kröfðust þess að íslensk skipafélög hefðu jafnan rétt á að keppa um flutningana. Íslensk stjórnvöld byggðu kröfu sína á efnahags- og öryggishagsmunum íslensku þjóðarinnar. Smæð íslensks markaðar gerði það að verkum að flutningar fyrir varnarliðið væru lykilatriði fyrir öfluga innlenda skipaútgerð sem gæti þjónað efnahags- og öryggishagsmunum þjóðarinnar á hættu- og neyðartímum.``

Ég vona að hæstv. utanrrh. hafi heyrt til mín, (Gripið fram í.) frá óskabarni þjóðar okkar.

,,Smæð íslensks markaðar gerði það að verkum að flutningar fyrir varnarliðið væru lykilatriði fyrir öfluga innlenda skipaútgerð sem gæti þjónað efnahags- og öryggishagsmunum þjóðarinnar á hættu- og neyðartímum. Við slíkar aðstæður væri Íslendingum lífsnauðsyn að hafa til taks öflugan skipakost, en fá ríki eru jafnháð siglingum og Ísland.``

Síðan segja menn: ,,Nei, þetta ákvæði á ekki að fara inn í samninga.`` Ég man ekki hvort það var hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sem kom inn á að það væri kannski óeðlilegt við tillögu mína um viðbót við þetta frv. að ætla þar í lagakafla að tiltekið skip undir íslenskum fána ætti að sigla með þessa vöru. (SighB: Bara á þessari leið.) Bara á þessari leið. Ja, það er bara þannig í hinum bandaríska samningi að þar á að vera bandarískt skip undir bandarískum fána bara á þessari leið. En það á ekkert að gilda fyrir okkur sem erum svo háðir siglingum sem eyland. Það er allt í lagi að það gildi bara fyrir Bandaríkin. Hér eru menn tilbúnir til að leggja málið allt öðruvísi upp, með skip undir erlendum fána, með erlenda áhöfn. Hver eru meginrökin fyrir því að Eimskipafélag Íslands og þessi skipafélög vilja hafa erlendar áhafnir undir erlendum fána í þessum siglingum? Það er samkeppnin. Samkeppnin er svo rosaleg að við verðum að hafa erlenda áhöfn til þess að geta verið í beinni samkeppni við önnur skipafélög. Við hvaða skipafélög? Getur verið að bandarískt skipafélag mannað bandarískum sjómönnum sé miklu ódýrari en skip undir íslenskum fána með íslenskri áhöfn? Alls ekki. Ég þekki það vel og veit allt um kauptaxta þeirra og laun. Það er allt annað launakerfi, miklu betri laun, meira frí á bandarísku kaupskipi en því íslenska. Síðan segja íslensk skipafélög: ,,Nei, við erum í svo mikilli samkeppni. Við verðum að nota fólk þriðja heimsins og skip undir hentifána til þess að flytja bandarískar vörur í harðri samkeppni.`` Við hvern? Ekki Samskip. Það er engin samkeppni þar á milli vegna siglinga til Bandaríkjanna.

Virðulegi forseti. Mér finnst að riðið sé við einteyming í þessu frv. Ég get vel skilið að það pirri menn þegar menn komast bakdyramegin inn í íslenska löggjöf. Það getur vel verið að það pirri utanrrn. og starfsmenn þess. En allt um það. Einnig held ég að ef menn setja upp lagagrunn sem á að byggjast á varnarsamstarfi við Bandaríkin sé eðlilegt að gagnkvæmni sé í þeim samningi, gagnkvæmni í því að þar sem krafa er gerð um bandarískt skip undir bandarískum fána, að þá sé eðlilegt að líka sé krafa um íslenskt skip undir íslenskum fána og með íslenskri áhöfn og því hef ég lagt þessa brtt. fram, virðulegi forseti. Hér hefur hv. þm. Sighvatur Björgvinsson óskað eftir því að ég dragi tillögu mína til baka til 3. umr. Ég mun verða við því og vona að hv. utanrmn. taki þetta mál til verulegrar íhugunar.

Mér þykir hins vegar leitt að hér skuli ekki vera viðstaddur formaður utanrmn. Hann nefndi það ekki við mig en vissi þó að þetta mál væri fram undan. Hitt er verra, að hann kom til mín og bað mig um að hleypa sér að til að svara þeim tveimur þingmönnum sem voru á undan mér á mælendaskrá. Ég hleypti honum fram fyrir mig og síðan yfirgefur hann húsið. Þetta er náttúrlega með nokkrum ólíkindum, herra forseti.

Að lokum þetta. Íslensk kaupskipaútgerð hefur haldið því fram nú um langan tíma að hún byggi við svo óviðunandi umhverfi að þess vegna gæti hún ekki sett skipin undir íslenskan fána. Meginrökin voru þau að stimpilgjöld á Ísland væru svo há. Þau þurfti að afnema. Þá mundi kaupskipastóllinn undir íslenskum fána vaxa.

Nú eru liðin tvö ár síðan stimpilgjöldin voru afnumin og það er eitt íslenskt kaupskip undir íslenskum fána. Hvað þarf að gera til að efla íslenska kaupskipaútgerð? Ég held að fyrsta skrefið verði stigið í því með því að setja sömu ákvæði um íslensk kaupskip og Bandaríkjamenn gera varðandi bandarísk skip undir bandarískum fána með bandaríska áhöfn.

Svo vona ég, herra forseti, að þetta mál fái góðan meðbyr í utanrmn. og verði þjóð og þingi til heilla í vel afgreiddu máli.