Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 18:39:36 (6386)

2000-04-11 18:39:36# 125. lþ. 97.22 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[18:39]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frv. um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, eins og frv. heitir þótt vissulega væri ástæða til að hafa langt mál um bandaríska herinn á Íslandi og framtíð hans. Í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar kom fram að við höfum lagt fram þáltill. á þinginu um að gengið verði til viðræðna við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar þannig að við mundum vilja nálgast málin frá þeirri hliðinni.

Hins vegar hefur umræðan varpað ljósi á vissa þætti sem eru einnig umræðunnar virði og vísa ég þá sérstaklega í ræðu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar. Það sem þetta frv. fjallar um er sem áður segir samskipti Íslendinga og Bandaríkjamanna og þá einkum og sér í lagi varðandi flutninga til landsins. Eins og komið hefur fram hafa þessir aðilar komið sér saman um að skipta flutningunum þannig að hluti þeirra, 65%, skuli hafna hjá öðrum hvorum aðilanum en 35% hjá hinum. Sá sem býður betur skuli fá stærri hlutann, sá sem býður verr skuli fá minni hlutann. Bandarísk skipafélög skuli annast hluta flutninganna, íslensk skipafélög skuli annast hinn hlutann.

Þá vaknar sú spurning: Hvernig ber að skilgreina íslensk og bandarísk skipafélög? Þessir flutningar eru nú á hendi tveggja félaga, annars vegar Atlantic skipafélagsins og hins vegar Transatlantic skipafélagsins. Því hefur verið haldið fram í umræðu um málin að bæði félögin séu bandarísk að uppistöðu til. Því hefur verið haldið fram að bæði þessi félög séu í raun bandarísk. Talsmenn Atlantic skipafélagsins vísa þessu á bug og segja þetta vera rangt.

Ég vil taka undir þau sjónarmið sem komu fram í máli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að hér skipti miklu máli hvaða skilgreiningar eru lagðar til grundvallar þegar leitast er við að svara spurningunni: Hverri þjóð heyrir fyrirtækið? Hann hefur lagt fram brtt. við þetta frv. Í ljósi þess að í skilgreiningum stjórnarfrv. er hvergi vikið að sjómönnum þá hefur hann lagt fram svohljóðandi brtt., með leyfi forseta:

,,Eiga eða leigja skip sem sigla undir íslenskum fána, mönnuð íslenskri áhöfn, ef fyrirtækið hefur sjóflutninga með höndum.``

Þetta vill hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson að komi inn í skilgreiningu á íslenskum fyrirtækjum í 1. gr. frv. Ég leyfi mér að spyrja: Er einhver andvígur þessu? Er einhver andvígur því að þessi skilgreining á íslensku fyrirtæki komi inn í frv.? Ég auglýsi eftir rökum fyrir því að leggjast gegn þessari brtt. hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar. Það sem mér fannst vera nánast ógnvekjandi í þeim upplýsingum sem fram komu í hans máli var hvernig háttaði siglingum hjá Eimskipafélagi Íslands. Það kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að af 11 skipum sem eru í millilandasiglingum fyrir Eimskipafélag Íslands er aðeins eitt undir íslenskum fána. Það kom líka fram að aðeins sex þessara skipa eru með íslenskri áhöfn. Tvö þeirra skipa eru með íslenska áhöfn að hluta til og þrjú skip eru með erlenda áhöfn. Síðan eru menn að rífast um hvort eigi að fá bitann, Eimskipafélagið eða Atlantsskip. Hvort félagið er íslenskara? Ég leyfi mér að spyrja vegna þess að sami háttur mun verða hafður á hjá Atlantsskipum. Þar eru erlendar áhafnir á skipunum og ekki eru þar íslenskir fánar að húni. Þess vegna leyfi ég mér, herra forseti, að auglýsa eftir rökum með því að leggjast gegn þeim brtt. sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur lagt til því að hann er að koma fram með brtt. til styrktar íslenskum sjómönnum. Reyndar má spyrja hvort ekki sé eðlilegt að bæta í þessa brtt., og vísa þar til kjarasamninga, að því aðeins skuli litið á skipin sem íslensk að þau sigli undir íslenskum fána með íslenskri áhöfn og að virtir séu þar íslenskir kjarasamningar. E.t.v. er það atriðið sem skiptir mestu máli í þessu.

Ég ítreka, herra forseti, að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði hefðum viljað nálgast þessi mál frá öðrum enda. Við höfum lagt fram tillögu um að hefja viðræður við Bandaríkjamenn um brottför ameríska hersins af landi okkar. En að sjálfsögðu munum við taka þær tillögur sem fram hafa komið frá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni til velviljaðrar skoðunar því að ekki viljum við láta okkar eftir liggja að styðja íslenska sjómenn.